Fjölmenni safnaðist saman á Akureyri til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Einnig var góð mæting í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð. Yfirskrift þessa baráttudags okkar að þessu sinni eru „Sterk hreyfing – sterkt samfélag” sem vísar til þess að verkalýðshreyfingin hefur öðrum fremur mótað Ísland sem velferðarsamfélag. Gengið var frá Alþýðuhúsinu, við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar, gegnum miðbæinn að Ráðhústorgi og svo niður í Menningarhúsið HOF, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna og Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusamands Íslands, flutti hátíðarræðuna að þess sinni. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði. Félagar í Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri mættu á svæðið og tók tvö skemmtileg dans og söngatriði úr söngleiknum um Gosa sem þau settu nýlega á svið. Í lok dagskrár mætti Ívar Helgason á svæðið og tók nokkur lög. Að dagskrá lokinni var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðaborð í Menningarhúsinu HOFI.
Skoða myndir