Undanfarin ár hefur félagið haft í boði styrki sem kallast “Orlof að eigin vali” og hafa þessir styrkir verið vel nýttir af félagsmönnum. Árið 2024 mun félagið verja allt að kr. 8.100.000 í “Orlof að eigin vali.” Félagsmenn geta sótt um 300 slíka styrki, hver að upphæð kr. 27.000, og er styrkloforðum úthlutað eins og orlofshúsunum. Einungis er hægt að sækja um rafrænt, á Orlofsvef félagsins. Sækja þarf um í síðasta lagi 2. apríl 2024.
Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu eða eru í vandræðum með að sækja um í gegnum Orlofshúsavefinn geta fengið aðstoð á skrifstofum félagsins.
Hægt er að nota fjárhæðina t.d. til leigu á orlofshúsi (ekki þau sem eru í eigu Einingar-Iðju) eða ferðavögnum, gistingu á hóteli, flugfar innanlands eða erlendis, allt eftir óskum hvers og eins. Ekki er borgað fyrir eldsneyti. Hámark á hvern félagsmann er eins og áður segir kr. 27.000, en þó aldrei hærri en 50% af kostnaði.
Dregnir verða 18 punktar af félagsmönnum. Greiðsla fer fram eftir að ferðalagi lýkur en félagsmenn þurfa að framvísa reikningi fyrir dvöl eða ferð.
"Orlof að eigin vali" gildir fram til áramóta. Það þýðir að þeir sem fá úthlutað þurfa að koma með reikninga eða farseðla fyrir næstu áramót til að fá endurgreitt.
Það þarf að koma með tilheyrandi gögn (reikninga eða farseðla) fyrir áramót til að styrkurinn verði greiddur út.
ATH! Framvísa þarf löglega númeruðum vsk. reikningum eða farseðlum!