Desemberuppbót er eingreiðsla sem ber að greiða samkvæmt kjarasamningum. Upphæð ákvarðast af starfstíma og starfshlutfalli. Desemberuppbót er með inniföldu orlofi og greiðist sjálfstætt og án tengsla við laun.
2024
Fullt starf telst 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Þeir sem eru í starfi fyrstu viku í desember eða hafa verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eiga rétt á uppbót eigi síðar en 15. desember. Fullt ársstarf m.v. 45 vikur eða 1.800 klst. á tímabilinu 1. janúar til 30. nóvember.
Dæmi um útreikninga:
Dæmi 1:
Starfsmaður byrjar í nýju starfi 1. september og hyggst starfa til áramóta. Tímabilið frá 1. september til 31. desember samsvara 17 vikum. Hlutfall uppbótar hans er 37,8% (17 vikur / 45 vikur).
Desemberuppbót hans er því 106.000 kr x 0,378 = 30.068 kr
Dæmi 2:
Starfsmaður hefur unnið í 30 vikur í 70% starfi.
106.000/45 x 30 x 70% = 49.467 kr.
Dæmi 3:
Starfsmaður hefur unnið 800 stundir óreglulega í 30 vikur. Ef starfsmaður hefur unnið mjög óreglulega er oft betra að miða við klukkustundir. 45 vikur í fullu starfi gera 45*40=1.800 tímar.
106.000/1.800 x 800 klst = 47.111 kr.
Þeir sem eru við störf fyrstu viku nóvember eða hafa starfað í 13 vikur samfellt á árinu skulu fá greidda desemberuppbót 1. desember ár hvert. Full uppbót miðast við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Ávinnslutímabilið er fyrstu 10 mánuðir ársins.
Dæmi um útreikning:
Starfsmaður hefur verið í 70% starfi í frá 1. mars eða í 8 mánuði af fyrstu 10 á árinu.
106.000/10 x 8 x 70% = 59.360 kr
Starfsmaður í 100% starfshlutfalli fær greidda persónuuppbót 1. desember ár hvert. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag. Ávinnslutímabilið er frá 1. desember árið á undan.
Dæmi um útreikning:
Starfsmaður hefur verið í 70% starfi í frá 1. mars eða í 9 mánuði.
135.500/12 x 9 x 70% = 71.138 kr
Hér má finna ákvæði kjarasamninga:
Á almenna markaðinum
Fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Uppbótin greiðist eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember. Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1. desember til 30. nóvember ár hvert í stað almanaksárs.
Desemberuppbót innifelur orlof, er föst tala og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum. Áunna desemberuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar.
Starfsmaður sem er í ráðningarsambandi við fyrirtæki en er ekki á launaskrá vegna hráefnisskorts eða vegna veikinda í desember missir ekki rétt til desemberuppbótar og reiknast sá tími með við útreikning desemberuppbótar mæti hann til vinnu að lokinni fjarveru vegna hráefnisskorts.
Hjá ríkinu
Starfsmaður sem er við störf í fyrstu viku nóvembermánaðar skal fá greidda persónuuppbót 1. desember ár hvert miðað við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Persónuuppbót er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Á persónuuppbót reiknast ekki orlofsfé. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda persónuuppbót, miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í fæðingarorlofi. Áunnin persónuuppbót skal gerð upp samhliða starfslokum.
Desemberuppbót í flatarmældri ræstingu ákvarðast af fermetrafjölda sem greiddur er tímabilið 1. janúar - 31. október þannig að 833,33 fermetrar á mánuði teljast fullt starf og færri fermetrar reiknast hlutfallslega
Hjá sveitarfélögum
Starfsmaður í 100% starfshlutfalli fær greidda persónuuppbót 1. maí og 1. desember ár hvert. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag. Hafi starfsmaður gengt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma.
Tímavinnumaður fær fulla persónuuppbót ef hann vinnur 1504 virkar vinnustundir. Greitt skal hlutfallslega miðað við unna tíma og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag.
Hafi starfsmaður látið af störfum á árinu vegna aldurs skal hann fá greidda persónuuppbót hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma.
Sama hlutfallsregla gildir ef starfsmaður var frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu vinnuveitanda lýkur eða vegna fæðingarorlofs sbr. 8. gr. laga nr. 144/2020. Sjá einnig gr. 11.1.8.
Persónuuppbót er föst fjárhæð og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum samningsins. Á persónuuppbót reiknast ekki orlofslaun.
Áunnin persónuuppbót skal gerð upp við starfslok starfsmanns