Aðalfundur Einingar-Iðju 2022 – ræða formanns og ársreikningur

Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að flytja skýrslu stjórnar á aðalfundinum.
Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að flytja skýrslu stjórnar á aðalfundinum.

Aðalfundur Einingar-Iðju var haldinn í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri í gær, miðvikudaginn 6. apríl. Á fundinum fór Björn formaður yfir skýrslu stjórnar, Hermann Brynjarsson, , frá endurskoðunarfyrirtækinu Enor ehf., fór yfir ársreikningana og einnig voru kosnir 40 fulltrúar Einingar-Iðju í fulltrúaráð Stapa lífeyrissjóðs. Ágæt mæting var á fundinn sem var snertifundur, en síðustu tveir aðalfundir voru rafrænir vegna Covid.

Í skýrslu stjórnar sagði Björn formaður m.a. “Loksins getum við haldið okkar aðalfund saman en ekki rafrænt á Teams eins og við höfum þurft að gera á þessum Covid tímum. Það er mikill munur á því að hafa ykkur hér í salnum en að hafa ykkur á skjánum, þó að það hafi bjargað því að hægt var að halda fundi.” 

Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð
Sjálfkjörið var í stjórn og trúnaðarráð félagsins þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Í kjöri þetta árið var varaformaður og einn meðstjórnandi. Stjórn Einingar-Iðju skipa nú: Björn Snæbjörnsson formaður, Anna Júlíusdóttir varaformaður, Gunnar Magnússon ritari, Sunna Líf Jóhannsdóttir meðstjórnandi. Einnig svæðisfulltrúarnir þrír, þau Elín Kjartansdóttir, Guðrún Þorbjarnardóttir og Róbert Þorsteinsson, og formenn og varaformenn deildanna þriggja, þau Guðbjörg Helga Andrésdóttir, Ingvar Kristjánsson, Tryggvi Jóhannsson, Bethsaida Rún Arnarsson, Ingibjörg María Ingvadóttir og Svavar Magnússon.