Á síðustu fimm mánuðum, frá því í byrjun nóvember 2020 þangað til í lok mars 2021 lækkaði vörukarfa ASÍ í sex verslunum af átta. Mest lækkaði hún í Heimkaup um 11,2% en hún hækkaði mest í Nettó um 0,8 %. Vörukarfan endurspeglar almenn matarinnkaup meðalheimilis. Verð lækkar í meirihluta vöruflokkanna í flestum verslununum en grænmeti og ávextir lækka þó mest í verði.
Vörukarfan lækkar mest í Heimkaup eða um 11,2%
Mest lækkaði vörukarfan í Heimkaup á tímabilinu, 11,2% en miklar verðlækkanir eru í öllum vöruflokkum í versluninni, mest í flokki grænmetis og ávaxta en minnst á kjötvöru. Næst mest lækkaði verð í Kjörbúðinni 3,5% en þar á eftir kemur Hagkaup með 2,4% lækkun. Vörukarfan lækkaði um 1% í Iceland, 0,7% í Krónunni og 0,3% í Bónus. Vörukarfan hækkar hins vegar um um 0,8% í Nettó og vegur þar þyngst 10,7% verðhækkun á kjötvöru en kjötvara, grænmeti og ávextir eru þeir vöruflokkar sem sveiflast mest í verði. Þá hækkaði vörukarfan um 0,1% í Krambúðinni.
Af lágvöruverðsverslununum lækkar verð mest í Krónunni, 0,7%. Af öðrum verslunum sem teljast ekki til lágvöruverðsverslana og eru sumar hverjar með lengri opnunartíma og eru staðsettar á fleiri stöðum á landinu lækkar verð mest í Heimkaup, 11,2% og næst mest í Kjörbúðinni, 3,5%.
Fylgstu með Verðlagseftirliti ASÍ á Facebook. Vertu á verði – Facebook-hópur. Taktu þátt í eftirliti með verðlagi.