Vörukarfa ASÍ hækkaði í átta af átta matvöruverslunum sem könnunin nær til á rúmlega sjö mánaða tímabili. Vörukarfan hækkaði á bilinu 5 til 17%, mest hjá Heimkaup, 16,6% en minnst í Krónunni, 5,1%. Þetta er í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs á sama tímabili sem sýnir 6,2% hækkun á á mat- og drykkjarvöru. Næst mest hækkaði vörukarfan hjá Iceland, 12,4% og næst minnst hjá Bónus, 5,7%. Vörukarfa ASÍ endurspeglar almenn matarinnkaup meðalheimilis.
Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna.
16,6% hækkun á vörukörfunni í Heimkaup og 12,4% í Iceland
Mest hækkaði vörukarfan í Heimkaup, 16,6%. Drykkjarvörur er sá matvöruflokkur sem hækkaði mest hjá Heimkaup, 33,8% en kjötvara minnst, 6,7%. Næst mest hækkaði vörukarfan í Iceland, 12,4%. Mest hækkaði mjólkurvara hjá Iceland, 24,1% og er það mesta hækkun í þessum vöruflokki í könnuninni. Ef litið er til annarra verslana sem eru með meira vöruúrval, lengri opnunartíma eða eru staðsettar úti á landi má sjá að vörukarfan hækkar um 8,9% í Krambúðinni, um 7,5% í Kjörbúðinni og um 6,5% í Hagkaup.