Verðkönnun Verðlagseftirlits ASÍ á tryggingum sýnir að mikill munur getur verið á verði á tryggingum og eru neytendur hvattir til að fá tilboð frá ólíkum félögum. Könnunin sýnir að verðlagning tryggingafélaganna er misjöfn eftir tryggingategundum og að minni munur sé á tilboðum tryggingafélaganna ef þau innihalda margar ólíkar tryggingar.
Fjórir einstaklingar leituðu eftir tilboðum í „tryggingapakka“ hjá tryggingafélögunum fjórum þar sem leitað var eftir tilboðum í sambærilegar tryggingar og viðkomandi var þegar með. Þá óskuðu tveir einstaklingar eftir tilboðum í bílatryggingar eingöngu.
Vörður var með lægsta tilboð í alla stærri tryggingapakka sem innihéldu margar tryggingar. Mest var 37% eða 88.904 kr. munur á hæsta og lægsta tilboði tryggingafélaganna í tryggingapakka einstaklings sem innihélt m.a. bílatryggingu, fjölskyldu- og heimilistryggingu og húseigendatryggingu. Vörður var með lægsta tilboðið en TM það hæsta. Vörður var með lægsta tilboðið í alla fjóra tryggingapakkana.
Mest var 51% eða 126.545 kr. verðmunur á hæsta og lægsta tilboði tryggingafélaganna í lögbundnar ökutækjatryggingar auk bílrúðu- og kaskótryggingar, þar sem VÍS var með lægsta tilboðið en TM með hæsta tilboðið. Einhver munur getur verið á tryggingum milli tryggingafélaganna vegna ólíkra skilmála og mun á tryggingafjárhæðum sem voru þó stilltar af svo þær væru sem næst því að vera eins.