Virkið, þjónustu- og ráðgjafasetur er þverfaglegur samstarfsvettvangur fjórtán aðila á Akureyrar- og Eyjafjarðarsvæðinu og er meginmarkmiðið að grípa ungmenni sem falla milli kerfa og veita þeim heildstæðari þjónustu. Starfsemi Virkisins miðar að því að aðstoða ungmenni, á aldrinum 16-30 ára, sem þurfa á samfelldri þjónustu að halda vegna atvinnuleitar, skólagöngu, endurhæfingar eða annarrar meðferðar.
Frá og með deginum í dag hefjast opnir tímar hjá Virkinu þar sem þessum ungmennum stendur til boða að koma og leyta sér aðstoðar/ráðgjöf. Opið verður mánudaga til fimmtudaga frá 13:00 til 15:00. Virkið býður upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf með það að markmiði að bæta líðan og efla virkni ungmenna í samfélaginu.
Eining-Iðja hvetur félagsmenn sem eru í þessum aldurshóp og þurfa á þessari þjónustu að halda að nýta sér Virkið.
Nánar um Virkið
Virkið starfar sem þjónustuborð á Eyjafjarðarsvæðinu með hagsmuni einstaklinga á aldrinum 16-30 ára að leiðarljósi. Markmiðið er að bæta þjónustu við ungt fólk á krossgötum með því að auðvelda aðgengi ungmenna, veita snemmtæka íhlutun, minnka líkur á að fólk falli á milli kerfa, samþætta þjónustu og úrræði, auðvelda tilvísunaraðilum að koma málum í réttan farveg og móta virkniúrræði.
Virkið er til húsa í Íþróttahöll Akureyrar með nýja og hlýlega aðstöðu þar sem boðið er upp á einstaklings viðtöl, gott aðgengi að tölvum, aðstoð við ferilskráargerð, starfsleit, nám o.m.fl.
Námskeið 14. febrúar
Þann 14. febrúar nk. hefst sex vikna námskeið í Virkinu með fjölbreyttri dagskrá þar sem áherslan er lögð á fyrirlestra og stutt námskeið sem styrkir atvinnuleit og eykur tækifæri út á vinnumarkaðinn. Einnig verða kynnt fyrirtæki og ýmsar stofnanir sem opna möguleika á menntun og þekkingu.
Nánar má fræðast um Virkið hér eða hafa samband við Virkið með því að senda póst á netfangið virkid@akureyri.is eða hringja í síma 460 1244.