Grein eftir Vigdísi Jónsdóttur, framkvæmdastjóra VIRK, sem birtist í ársriti VIRK 2023
Á þessu ári eru 15 ár síðan VIRK var stofnað. Samið var um stofnun og fjármögnun VIRK í kjarasamninngum fyrri hluta árs 2008 og þá undir nafninu „Endurhæfingarsjóður“. Síðar var nafninu breytt í „VIRK-Starfsendurhæfingarsjóður“ og oftast notum við eingöngu við nafnið „VIRK“.
Ég kom til starfa 15. ágúst 2008 og var þá fyrsti fastráðni starfsmaður VIRK. Gengið var frá ráðningu minni fyrr um sumarið og áður en ég hóf störf í ágúst fór ég í ferðalag til Svartfjallalands þar sem ég gekk um fagra náttúru og gat þá í ró og næði hugsað um þau nýju skref sem ég var að taka á mínum starfsferli.
Ég flaug á milli staða og í einni af þeim ferðum fannst mér ég þurfa að skrá niður eitthvað af hugsunum mínum og það eina sem ég hafði til að skrifa á voru ælupokarnir í flugvélinni. Þannig voru fyrstu hugmyndir mínar um uppbyggingu á VIRK skráðar á ælupoka frá Croatia Airlines, sjá mynd 1, og þá hafði ég í fórum mínum þegar ég mætti til starfa þann 15. ágúst 2008.