VIRK Starfsendurhæfingarsjóður hefur markvisst byggt upp þverfaglegan starfsendurhæfingarferil, persónulega ráðgjöf og þjónustu sem hefur það markmið að koma einstaklingum til vinnu. Fagleg þróun starfsendurhæfingar VIRK hefur miðað að því, auk þess að auka gæði þjónustunnar við einstaklingana, að hún nýtist í þróun á nýju starfsgetumati hér á landi. Fagleg vinna VIRK hefur m.a. vakið athygli erlendis frá, matsferillinn og þverfaglega teymisvinnan sem hann byggist á er meðal þeirra þátta í starfsemi VIRK sem erlendir fagaðilar líta til sem fyrirmyndar.
Starfsgetumat í stað örorkumats
Frá 1999 hefur fjölgað mjög í hópi þeirra sem eru utan vinnumarkaðar sökum skertrar starfsgetu en þá var tekinn upp
læknisfræðilegur örorkumatsstaðall sem lítur eingöngu til þess sem einstaklingar geta ekki gert. Samhliða upptökunni voru engir fjármunir
lagðir í starfsendurhæfingu til að auka möguleika einstaklinga sem búa við skerta starfsgetu vegna heilsubrests. Niðurstaðan er stórfelld aukning
á fjölda örorkulífeyrisþega undanfarin 16 ár, þeir eru nú um 18.000 og fjöldi þeirra hefur tvöfaldast frá árinu 1999,
með tilheyrandi útgjöldum lífeyrissjóða og ríkissjóðs og skertum lífsgæðum viðkomandi einstaklinga og fjölskyldna
þeirra.
Kostnaður samfélagsins vegna þessa nemur tugum milljarða króna og mjög mikilvægt er því fyrir einstaklinga, atvinnurekendur og samfélagið í heild sinni að grípa til ráðstafanna og reyna að snúa þessari þróun við. Það verður ekki gert nema með nýrri nálgun á viðfangsefnið, breyttri hugmyndafræði grundvallaðri á upptöku starfsgetumats í stað örorkumats.
Grunnforsenda þess að taka upp starfsgetumat hér á landi í stað örorkumats er að til staðar sé samræmdur faglegur ferill. Búa verður svo um hnútanna að öllum bjóðist skipulagður og faglegur starfsendurhæfingarferil og tryggja að allir þeir einstaklingar sem sækja um örorkulífeyri hafi farið í gegnum slíkan starfsendurhæfingarferil svo framarlega sem það er raunhæft og mögulegt fyrir viðkomandi einstakling.
Það kostar hinsvegar talsverða fjármuni að byggja upp þverfaglegan starfsendurhæfingarferil sem hefur bæði það að markmiði að auka starfsgetu einstaklinga og skila faglegum og raunhæfum niðurstöðum um getu og möguleika einstaklinga til þeirra aðila sem bera ábyrgð á framfærslu einstaklinga með skerta starfsgetu.
Fjárfest í starfsgetumati
Fagleg þróun hjá VIRK hefur frá upphafi miðað markvisst að því að byggja upp starfsendurhæfingarferil samtvinnaðan við matsferil,
þar sem markvisst er horft til styrkleika einstaklingsins en unnið samhliða með þær hindranir sem valda því að viðkomandi getur ekki unnið. Til
að ferill þjónustu og upplýsingaöflunar skili því sem ætlast er til þá þarf að byggja á skýrum faglegum ferlum,
góðri skráningu og aðkomu mismunandi fagaðila eftir þörfum hvers og eins.
Í starfsendurhæfingarferlinu sem VIRK hefur þróað í sex ár er þverfagleg aðkoma tryggð á öllum stigum ferilsins og allar
upplýsingar eru skráðar kerfisbundið í öruggt upplýsingakerfi. Þessi uppbygging og þjónusta hefur kallað á mikla
fjárfestingu VIRK bæði í þekkingaröflun og þróunarverkefnum í samstarfi við fjölda aðila bæði hérlendis og
erlendis. Meira en 80 fagaðilar hafa komið að þessari þróun í mismiklum mæli.
Efling starfsendurhæfingar forsenda starfsgetumats
Uppbygging þverfaglegrar teymisvinnu er ein forsenda þess að unnt verði að breyta lögum um almannatryggingar á þann veg að taka upp starfsgetumat
í stað örorkumats sem grundvöll úrskurða um bætur vegna skertrar starfsorku. Þessi uppbygging er einnig í takti við áherslur annarra
landa sem leggja áherslu á að nýta starfskrafta allra einstaklinga á vinnumarkaði - einnig þeirra sem glíma við heilsubrest af ýmsum
toga.
Matsferillinn og þverfaglega teymisvinna er meðal þeirra faglegu þátta í starfsemi VIRK sem vakið hefur athygli erlendis frá og fagaðilar hafa horft til sem fyrirmyndar. Hugmyndafræðin sem ferlið byggir á, hvernig starfsendurhæfingarferill er tengdur markvisst inn í matsferil sem endar með starfsgetumati sem og notkun á ICF kerfinu (International Classification of Function - alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu gefnu út af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO), tenging mælitækja við færnikóða innan ICF og notkun skýrivísa vekur mikla athygli erlendra fagaðila sem glíma við sömu verkefni og áskoranir og Íslendingar.
VIRK hefur frá stofnun unnið marvisst að og fjárfest umtalsvert í uppbyggingu þverfaglegs starfsendurhæfingarferils samtvinnuðum matsferli með það að markmiði að vinnuna verði hægt að nýta inn í þróun á nýju starfsgetumati hér á landi. Mikilvægt er að halda þessu starfi áfram og efla enn frekar. Ekki aðeins er árangursrík starfsendurhæfingarþjónusta eins og VIRK býður upp á ein allra arðbærasta fjárfestingin í samfélagi okkar, heldur er frekari efling starfsendurhæfingar nauðsynleg svo að gerlegt sé að skipta úr örorkumati í mat á starfsgetu hjá bæði lífeyrissjóðum og opinberum aðilum. Starfsfólk VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hefur verið í fararbroddi faglegar vinnu við þróun starfsgetumats á undanförnum árum og eru reiðubúin til þess að leiða þá vinnu áfram.
Fimm fulltrúar í Eyjafirði
Á Eyjafjarðarsvæðinu starfa fimm ráðgjafar hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði, þau, Elsa, Hildur Petra, Nicole, Svana og Ágúst. Þau eru starfmenn Einingar-Iðju, en starfa fyrir öll stéttarfélög á svæðinu. Þau eru með aðsetur á skrifstofu félagsins á 2. hæð í Alþýðuhúsinu á Akureyri.
ATHUGIÐ!