Eftirlitsfulltrúar ASÍ og aðildarfélaga þess af öllu höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í vel heppnaðri aðgerð undir stjórn lögreglu þann 5. mars sl. Aðgerðin er sú viðamesta sinnar tegundar frá upphafi og byggir á góðu og þörfu samstarfi margra aðila í aðdraganda aðgerðarinnar.
Vinnustaðaeftirlit ASÍ og stéttarfélaganna hefur um nokkuð skeið heimsótt umrædda veitingastaði og rætt við starfsfólk með aðstoð túlks. Tilgangurinn með eftirlitsheimsóknunum er fyrst og fremst að upplýsa fólk um réttindi sín á vinnumarkaði og að byggja upp traust og trúnað starfsfólksins. Í heimsóknunum hefur ýmislegt komið fram sem vinnustaðaeftirlitið hefur miðlað til þar til bærra aðila. Verkefninu er hvergi nærri lokið því núna þarf að tryggja að ætlaðir þolendur fái allan þann stuðning sem þau eiga rétt til.
Þótt misneyting á íslenskum vinnumarkaði sé langt frá því að vera nýlunda hefur ASÍ um nokkuð skeið bent sérstaklega á berskjaldaða stöðu aðflutts launafólks, ekki síst fólks frá löndum utan EES, meðal annars í vinnumarkaðsskýrslu frá árinu 2023. Nauðsynlegt er að traust regluverk sé til staðar á vinnumarkaði svo hægt sé að koma í veg fyrir misneytingu og mansal. Kröftugt vinnustaðaeftirlit sem fylgir því eftir er auk þess sýnilega mikilvægt. Mikilvægast er svo að við tryggjum að fólk eigi örugga útleið úr slæmum ráðningarsamböndum og að það hafi ekki slæmar afleiðingar fyrir afkomu og dvöl fólks í landinu að segja frá illri meðferð í vinnu.
Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað fjallað um þá meinsemd sem launaþjófnaður, misneyting og mansal er á vinnumarkaði. Lögregluðgerð þessi boðar ákveðin tímamót og gefur vonandi fyrirheit um aukinn þunga stjórnvalda í baráttunni gegn misneytingu og mansali.
Verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits í Eyjafirði og á Norðurlandi vestra