Vinnueftirlitið hvetur atvinnurekendur og starfsfólk til að taka vel á móti ungmennum þegar þau á næstu dögum hefja sumarstörf að loknu skólaári. Gæta þarf vel að þjálfun þeirra en rannsóknir sýna að ungu fólki er því miður hættara en því sem eldra er við að lenda í óhöppum og vinnuslysum. Af þeim sökum hefur Vinnueftirlitið gefið út veggspjald um vinnu barna og unglinga sem er ætlað til upplýsinga fyrir atvinnurekendur og ungmenni sem eru að feta sín fyrstu skref á vinnumarkaði.
Á heimasíðu Vinnueftirlitsins segir að atvinnurekendur beri ábyrgð á að vinnuskilyrði ungmenna séu örugg og að þau fái viðeigandi fræðslu og þjálfun. Þannig má forðast slys og tryggja að öll komi heil heim. Með því er jafnframt lagður grunnur að því að þannig verði það starfsævina á enda.
Öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi þar sem starfsfólki líður vel er undirstaða góðra verka. Því hvetur Vinnueftirlitið vinnustaði til að taka vel á móti ungu starfsfólki og tryggja bæði líkamlegt og sálfélagslegt öryggi þess þannig að það upplifi sig öruggt á sem flestum sviðum þegar frá upphafi.
Til að styðja við atvinnurekendur sem hafa ungt fólk í vinnu og ungmennin sjálf hefur Vinnueftirlitið gefið út veggspjald sem byggir á reglugerð um vinnu barna og unglinga.
Þar er meðal annars fjallað um hvaða störfum börn og unglingar mega sinna eftir aldri og almennar reglur um vinnutíma þeirra á sumrin og á skólatíma.