Vinnueftirlitið boðar aðgerðavakningu undir yfirskriftinni #Tökum höndum saman: Eflum heilbrigða vinnustaðamenningu. Markmiðið er að vekja athygli á því að heilbrigð vinnustaðamenning stuðlar að öryggi og vellíðan starfsfólks og er ein áhrifaríkasta forvörnin gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað. Hún hefur auk þess jákvæð áhrif á árangur og orðspor vinnustaða.
Um er að ræða framhald af aðgerðavakningu sem hófst í febrúar undir yfirskriftinni #Tökum höndum saman: Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni en þar var kynnt til sögunnar fræðsluefni og verkfæri til að fyrirbyggja og bregðast við kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu. Um að ræða samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, samtaka aðila vinnumarkaðarins, embættis landlæknis og Jafnréttisstofu.
Atvinnurekendur og stjórnendur móta vinnustaðamenningu með þeim áherslum sem þeir velja að setja í forgang og festa í sessi með því að ganga á undan með góðu fordæmi. Sem dæmi má nefna að til að öryggi, vellíðan og heilbrigð samskipti verði hluti af ríkjandi vinnustaðamenningu verða stjórnendur að leggja áherslu á þá þætti. Starfsfólk tileinkar sér þessar áherslur og hefur að leiðarljósi í vinnulagi og samskiptum við aðra.
Þótt stjórnendur gegni lykilhlutverki við að skapa heilbrigða vinnustaðamenningu þá hefur starfsfólk líka hlutverki að gegna og verður að taka þátt og axla ábyrgð á verkefnum sínum og samskiptum við aðra.