Vinnan er veftímarit Alþýðusambands Íslands sem hefur komið út frá árinu 1943.
Í tímaritinu gætir ýmissa grasa og má m.a. finna umfjöllun um starf vinnustaðaeftirlits ASÍ sem hefur eftirlit með launaþjófnaði og réttindabrotum á vinnumarkaði með það að markmiði að standa vörð um kjör launafólks. Þá er fjallað um hið ört vaxandi hark-hagkerfi sem ógnar heilbrigðum vinnumarkaði en hark-hagkerfið er fyrirbrigði þar sem einstaklingar veita vinnu eða þjónustu á stafrænum vettvangi.
Í Vinunni í ár má m.a. finna stórskemmtilegt viðtal við Björn Snæbjörnsson, fyrrum formann Einingar-Iðju. Einnig má þar finna viðtöl sem tekin voru í tilefni af 1. maí við fimm konur sem eru formenn í sínum félögum. Þar á meðal við núverandi formann félagsins, Önnu Júlíusdóttir. Þær voru spurðar um stöðu kvenna í verkalýðshreyfingunni og þeirra eigin vegferð til áhrifa.
Þá er fjallað um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum sem eru til þess fallnar að ýta undir ójöfnuð. Þannig eru þeir sem bera minnsta ábyrgð á vandanum, almenningur og sér í lagi tekjulægri hópar, látin bera þyngstar byrðar í formi skatta og álaga á meðan þeir sem mestri losun valda njóta góðs af styrkjum og ívílnunum.
Þetta og fleira má finna í Vinnunni.