Vinna að nýjum langtímasamningi SGS og SA hafin

Þegar gengið var frá kjarasamningi SGS og SA þann 3. desember sl. var viðræðum um önnur atriði en launalið frestað. Í samningum er hins vegar að finna tímasetta verkáætlun sem miðar að því að umræðum um þessi atriði verði lokið áður en sest verður að samningaborðinu að nýju, með það að markmiði að nýr samningur til lengri tíma geti tekið við af gildandi samningi þegar hann rennur út þann 31. janúar 2024.

Í gær hófust viðræður um liðinn Menntun, fræðsla og fagbréf í húsnæði ríkissáttasemjara, eins og kveðið er á um í verkáætluninni. Til fundarins mættu fulltrúar frá SA og SGS og stóð hann yfir í tvær klukkustundir. Á fundinum var farið yfir þann hluta kröfugerðar SGS sem snýr að þessum atriðum og gengið frá fundarplani sem miðar að því að viðræðum um þennan lið verði lokið á tilsettum tíma.

Mynd frá fundinum: Frá vinsti; Maj-Britt Hjördís Briem og Sólveig B. Gunnarsdóttir, lögfræðingar á vinnumarkaðssviði SA ásamt fulltrúum SGS, þeim Aðalsteini Árna Baldurssyni, formanni Framsýnar, Björgu Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra SGS, Guðbjörgu Kristmundsdóttur, varaformanni SGS og formanni VSFK, og Finnboga Sveinbjörnssyni, formanni VerkVest.