Viðtal við Björn formann í Vikublaðinu

Í Vikublaðinu sem kom út í síðustu viku er m.a. ítarlegt viðtal við Björn Snæbjörnsson formann félagsins. Þann 1. maí sl. hafði hann starfað hjá félaginu og forverum þess í 40 ár. Viðtalið má lesa hér fyrir neðan.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, fagnar 40 ára starfsafmæli sínu
Heila málið að landa góðum samningum fyrir félagsmenn

„Það er aldrei létt verk að fara í kjarasamninga og ástandið hefur um tíðina oft verið erfitt, en ætli menn séu ekki nokkuð sammála um að það er af ýmsum ástæðum þungt fyrir fæti nú. Við höfum oft séð það svart þegar farið er af stað í samningagerð og vonum bara að okkur farnist vel í komandi viðræðum,“ segir Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju. Björn fagnaði nú í byrjun mánaðar 40 ára starfsafmæli sínu hjá félaginu. Hann var um 12 ára skeið formaður Starfsgreinasamband Ísland og lét af því embætti á nýliðnu þingi sambandsins. Hann lætur af störfum sem formaður á aðalfundi félagsins í apríl á næsta ári, en hann verður 70 ára gamall árið 2023.

Björn er fæddur á Nolli í Grýtubakkahreppi og ólst upp við öll almenn landbúnaðarstörf. Hann flutti til Akureyrar árið 1973 og sinnt ýmsum störfum í bænum, var m.a. svína og nautahirðir en lengst af starfaði hann í byggingavinnu. Með honum starfaði maður sem var í stjórn Verkalýðsfélagsins Einingar og fékk hann Björn eitt sinn með sér á fund í Einingu. „Ég hafði í sjálfu sér ekki neinn sérstakan áhuga á verkalýðsmálum á þeim tíma en hafði tekið þátt í félagsmálum ýmiskonar og lét til leiðast og fór með honum á fundinn. Þar hafði ég auðvitað skoðanir og var ekki að liggja neitt á þeim. Það leið ekki nema um það bil vika þar til ég fékk fyrirspurn um hvort ég vildi taka sæti í trúnaðarráði félagsins og ég samþykkti það. Þar með var ég komin af stað, boltinn farinn að rúlla. Þegar kosningar urðu í félaginu á milli Jóns Helgasonar og Guðmundar Sæmundsson var farið fram á það við mig að ég færi á lista Jóns sem stjórnarmaður. Við unnum kosninguna og stuttu síðar ræddu Jón og Sævar sem var varaformaður við mig hvort ég væri til í að koma og starfa á skrifstofu félagsins. Ég lét til leiðast og hóf þar störf þann 1. maí 1982. Í fyrstu fólst það í að sinna vinnustöðum og trúnaðarmannakerfinu,“ segir Björn sem var 29 ára þegar hann hóf störf á skrifstofu Einingar. Hann tók við stöðu varaformanns árið 1986 og varð formaður félagsins árið 1992.

8.000 félagsmenn
Eining-Iðja er stærsta stéttarfélagið á landsbyggðinni með um 8.000 félagsmenn og hefur sína vigt innan Starfsgreinasambandsins, á til að mynda alltaf fulltrúa í framkvæmdastjórn SGS og í miðstjórn ASÍ. Geta má þess að Eining-Iðja samanstendur af alls 24 stéttarfélögum sem áður fyrr voru starfandi við Eyjafjörð en hafa nú sameinast í eitt. Félagið rekur skrifstofur á Dalvík og Fjallabyggð og er með fulltrúa á Grenivík og Hrísey og fara starfsmenn á skrifstofunni á Akureyri reglulega í heimsóknir á þéttbýlisstaðina við Eyjafjörð til skrafs og ráðagerða.

„Það hefur vissulega margt breyst á þessum árum,“ segir Björn og bendir þar fyrst og fremst á alls kyns tæknimál, tölvur og það sem fylgir sem auðveldað hefur vinnuna. Verklag hefur líka breyst í þá átt að í eina tíð var algengt að fulltrúar félagsins droppuðu inn á vinnustaði og ræddu þar við fólk en nú er það miklu erfiðara, strangari reglur um allt aðgengi. Nú er meira um að haldnir séu formlegir fundir og þá allur vinnuhópurinn saman en samkvæmt kjarasamningum á fólk rétt á því að halda tvo fundi á ári sem við getum komið og rætt við félagsmenn. Félagsfólk nýtir sér þann rétt mikið og ekkert er eins ánægjulegt við starfið en að fara á vinnustaði og hitta fólk, fræða það og svara fyrirspurnum. Þessir fundir eru oft krefjandi en alltaf skemmtilegir, en öll upplýsingagjöf er mikils virði og auðveldari nú í seinni tíð.“

Björn segir að einnig er gríðarleg mikið sótt á skrifstofur félagsins og hefur það vaxið ár frá ári og nú er mjög áberandi hvað unga fólkið er miklu opnara fyrir því að fræðast en áður fyrr. „Við höfum alltaf verið heppinn með starfsfólk, en gott starfsfólk er lykillinn að veita félagsmönnum góða þjónustu.“

Leitar til okkar með svipuð vandamál
Þó svo að miklar breytingar hafi orðið á hvað varðar tækni og upplýsingagjöf segir hann að úrlausnamálin sem tekist er á við séu svipuð. „Fólk leitar til okkar með margs konar mál sem tengjast ákvæðum í kjarasamningum, hvort það er að fá rétt laun, hvort orlofið sé rétt reiknað, mál sem tengjast veikindarétti, vinnutilhögun og ýmsum kjarasamningsbundnum málum,“ segir Björn.

Hann segir að um tíðina hafi hann tekið þátt í gerð fjölmargra kjarasamninga „og þeir hafa verið misgóðir eins og gengur,“ segir hann. „Oft er maður mjög ósáttur með samning og finnst hann ómögulegur, ekki náð markmiði sínu við gerð hans. Svo eftir á að hyggja reyndust þetta hinir ágætustu samningar. Það er mjög gefandi í þessu starfi að landa góðum samningum fyrir félagsmenn. Um það snýst allt heila málið þegar öllu er á botninn hvolft,“ segir Björn.

Fer best á að stilla saman strengi
Nú á vordögum hefur verið unnið að kröfugerð félagsins og hefur það falið Starfsgreinasambandinu umboð til að fara með samningamál fyrir sína hönd. „Það skiptir í mínum huga miklu máli að félögin komi sameinuð að borðinu og ég vona svo sannarlega að sem flest þeirra feli sambandinu sitt umboð til að fara með samingamálin,“ segir Björn. „Það versta sem ég get hugsað mér er skortur á samstöðu, það er að mínu viti farsælast að sameina kraftana og koma öll að borðinu sem ein samhuga heild. Þannig aukum við slagkraftinn.“

Björn segir að vissulega sé ákveðinn vandi innan hreyfingarinnar um þessar mundir og vill kalla það samskiptavanda fyrst og fremst. „Það hefur oft um árin blásið hressilega í verkalýðshreyfingunni og menn hafa misjafnar skoðanir á málum, jafnvel staðið í illdeilum þegar verst lét. Svo jafnar það sig, enda er í góðu lagi að það hafi ekki allir sömu skoðanir, það er bara gott að sem flest sjónarmið komi fram.“

Björn segir að félagsmenn Einingar Iðju hafi sett aukinn kaupmátt og krónutöluhækkun á laun á oddinn fyrir næstu kjarasamningaviðræður. „Eldra fólk hafði áhuga fyrir að fjölga starfsaldursþrepum og ríkið hækkaði skattleysismörk. Yngra fólk vill að samið verði á þeim nótum að ríkið komi að og auðveldi ungu fólki að eignast húsnæði og eins að barnabætur hækki.

En öll þessi 40 ár hafa verið krefjandi en ég væri til í að fara aftur í gegnum þennan feril það er svo gefandi og gaman að vera í samskiptum við félagsfólkið og alla þá sem starfa í félögunum. En að vera í starfi sem þessu er gefandi en ekki alltaf vinsælt og gagnrýnin ekki alltaf á rökum reist.“