Norræn samtök starfsfólks í hótel- og veitingagreinum hvetja árlega til vitundavakningar meðal fólks um áreitni og fyrir öryggi starfsfólks undir yfirskriftinni „Við erum ekki á matseðlinum!“. Nú þegar tími jólahlaðborða og ýmissa veisluhalda er genginn í garð er því ekki úr vegi að minna mikilvægi þess að sýna starfsfólki í þjónustugreinum þá virðingu og tillitssemi sem það á skilið.
Því miður er kynferðisleg áreitni nánast hversdagslegt athæfi innan hótel- og veitingageirans, sem er algjörlega ólíðandi og eitthvað sem enginn á að þurfa að þola. Samkvæmt rannsóknum verður helmingur kvenna starfandi í þjónustugreinum fyrir áreitni á vinnustað af hendi viðskiptavina, samstarfsfélaga, birgja eða yfirmanna og um fjórðungur karla verður fyrir slíkri áreitni.
Að koma í veg fyrir áreitni á vinnustöðum er því öryggismál og ber að fara með eins og önnur vinnuverndarmál. Það er fyrst og fremst á ábyrgð atvinnurekenda að búa starfsfólki öruggt vinnuumhverfi en við þurfum öll að axla ábyrgð ef við verðum vitni að áreitni. Atvinnurekendum ber skylda til að útbúa áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum og þeim ber að bregðast við eins fljótt og auðið er ef kvartanir berast um áreitni eða ofbeldi. Starfsmaður sem telur sig hafa orðið fyrir kynferðislegri eða kynbundinni áreitni eða ofbeldi eða hefur rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun á vinnustað skal upplýsa atvinnurekanda og/eða vinnuverndarfulltrúa um það. Þá er alltaf hægt að leita ráða hjá stéttarfélögunum og fá þar stuðning.