Á vef Samherja segir að starfsfólk vinnsluhúsa Samherja og ÚA á Dalvík og Akureyri fari í tveggja daga vetrarfrí í vikunni, fimmtudag og föstudag. Starfsmenn fá frí í einn dag á launum og hinn daginn er tekið út orlof. Þetta fyrirkomulag er unnið í góðu samstarfi við starfsmenn, sem hafa val um að taka frí með þessum hætti. Mismunandi er hjá öðrum starfsstöðvum hvernig fyrirkomulagið er útfært.
Á Akureyri og Dalvík verður sem sagt aðeins unnið þrjá daga vikunnar. Starfsmenn vinnsluhúsanna eru á þriðja hundrað og segir Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja að þessi tilhögun mælist mjög vel fyrir meðal starfsfólksins. Vetrarfríið og fyrirkomulag þess nær til um fimmhundruð starfsmanna Samherja.
100 % þátttaka
„Þetta eru sömu dagar og vetrarfrí er í grunnskólum á svæðinu, þannig að það skapast gjarnan álag á fjölskyldufólk og margir vilja vera í fríi og njóta tímans með fjölskyldunni í vetrarfríinu. Við útfærum þetta þannig að fólk tekur einn dag af orlofinu og hinn daginn greiðir vinnuveitandinn. Þetta er gert í góðu samráði við trúnaðarmenn á hverjum vinnustað og er algjörlega valfrjálst. Starfsfólk getur líka unnið þessa daga við verkefni sem við þá skipuleggjum. Undirtektirnar eru hins vegar svo góðar að mér sýnist núna að enginn ætli að mæta til vinnu. Við gerðum þetta líka í fyrra og núna var boðið upp á þetta val með ágætum fyrirvara,“ segir Gestur Geirsson.
Mikilvægt að starfsfólkið hafi val
Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju segir þetta fyrirkomulag almennt jákvætt. Í vinnsluhúsum ÚA á Akureyri og Samherja á Dalvík eru flestir starfsmenn í Einingu-Iðju.
„Trúnaðarmenn félagsins á hverjum stað hafa séð um þessi mál og sjálfur er ég jákvæður fyrir þessu. Í mínum huga er mikilvægt að starfsfólkið hafi val, sem er raunin í þessum tilvikum og þess vegna er þetta samkomulag milli launþega og vinnuveitenda jákvætt. Ég hef heyrt í trúnaðarmönnum sem segja mér að starfsfólkið sé sátt við þetta fyrirkomulag,“ segir Björn Snæbjörnsson.
Allir sáttir
Í fiskþurrkun ÚA á Laugum í Reykjadal fer starfsfólkið sömuleiðis í vetrarfrí í lok vikunnar en þar starfa tæplega tuttugu manns. Aðalsteinn Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags segir þetta fyrirkomulag skynsamlega leið.
„Vetrarfríin í grunnskólunum setja auðvitað strik í reikninginn hjá mörgum fjölskyldum, þannig að ég fagna því að málin séu leyst í góðri samvinnu, sem mér sýnist vera í þessu tilviki. Það er nokkuð misjafnt hvernig fyrirtækin leysa þessi mál, svo sem vetrarfrí í skólum, starfsdaga í leikskólum og svo framvegis. Ég hef verið í góðu sambandi við mitt fólk vegna þessa og mér sýnist þetta vera skynsamleg tilhögun. Ég er ekki frá því að vetrarfrí og skyldir þættir komi til umræðu við gerð næstu kjarasamninga, aðal málið er að allir séu sáttir,“ segir Aðalsteinn Baldursson.
Starfsfólk Silfurstjörnunnar til Hollands í vetrarfríinu
Anna María Kristinsdóttir starfsmannastjóri Samherja segir að vetrarfríið nái til starfsfólks í öllum deildum, útfærslur séu mismunandi eftir starfsstöðvum.
Hjá Samherja Fiskeldi er erfitt að loka í tvo daga vegna framleiðsluferilsins og því hafa þessi mál verið verið leyst á annan hátt, til dæmis tók starfsfólkið í Sandgerði frí síðasta föstudag og svo aftur eftir þrjár vikur. Starfsfólk Silfurstjörnunnar í Öxarfirði ætlar að fara í skemmtiferð til Hollands í mars og tekur þá út vetrarfríið, svo dæmi séu tekin.