Í verðkönnun ASÍ á matvöru og páskaeggjum sem framkvæmd þann 29. mars mældist mikill munur á verði milli verslana. Þannig var yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði á 28 vörum af 141 í matvörukönnuninni, 40-60% verðmunur á 30 vörum og 30-40% verðmunur á 40 vörum.
Dæmi um hve mikill verðmunur getur verið á einstakri matvöru var allt að 99% verðmunur á 200 gr. KEA skyri milli verslana. Allt að 47% verðmunur var á sólkjarnarúgbrauði, 64% verðmunur á Sóma samlokum og 63% verðmunur á súpukjöti. Bónus var oftast með lægsta verð á matvöru í könnuninni eða í 57% tilfella en Krónan næst oftast, í 20% tilfella. Bónus var einnig að jafnaði með lægsta meðalverðið og var verð í versluninni að meðaltali 2,8% frá lægsta verði. Iceland var oftast með hæsta verðið eða í 68 tilvikum. Því til viðbótar var meðalverð í versluninni hæst. Þannig var verð á vörum í könnuninni að meðaltali lengst frá lægsta verði eða 38% hærra en lægsta verð.
Minni verðmunur var á páskaeggjum en algengast var að munur á hæsta og lægsta verði væri 10-20%. Mestur verðmunur var á minni páskaeggjum. Bónus var oftast með lægsta verð á páskaeggjum, í 27 tilfellum af 32 en Iceland oftast það hæsta, í 24 tilfellum. Meðalverð á páskaeggjum í Iceland var einnig hæst eða að meðaltali 24% hærra en lægsta verð.