Verðbólga í matvöruverslunum fer lækkandi það sem af er ári. Milli mánaða hækkaði verðlag þeirra um 0,12% samkvæmt greiningum verðlagseftirlits ASÍ. Jafngildir það um 1,4% hækkun á ársgrundvelli. Þetta er margfalt lægri verðbólga en Hagstofan mældi í matar- og drykkjarvörum í fyrra en til viðmiðunar var árshækkun matvöruverðs 12,3% í maí á síðasta ári. Verðlag lækkar í fjórum verslunum en hækkar í sex.