Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á mjólkurvörum 25. október sl. Verð voru athuguð í tíu verslunum og voru alls 318 vörur teknar til greina. Einnig voru borin saman verð á fimm undirflokkum: mjólk og rjómi, vegan vörur, smjör og ostar, jógúrt og AB mjólk, og skyr. Í öllum tilfellum var verðlag hæst í 10-11 og Krambúðinni og lægst í Bónus og Krónunni.
Verðlag er reiknað með því að taka meðaltalsfjarlægð frá lægsta verði hverrar vöru fyrir sig, og endurspeglar hversu mikið hærra verð á vöru er að meðaltali frá þeirri verslun þar sem hún var ódýrust.
Verðlag var lægst í Bónus, 0,4% frá lægsta verði þegar allar vörur eru skoðaðar, og lægst í öllum undirflokkum. Það var hæst í 10-11, 66% frá lægsta verði þegar allar vörur eru skoðaðar, og hæst í öllum undirflokkum nema jógúrt og AB mjólk, þar sem Krambúðin var dýrari.