Verðbólga heldur áfram að lækka

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% milli mánaða í nóvember og mælist verðbólga nú 4,8%. Sé horft framhjá áhrifum húsnæðiskostnaðar mælist verðbólgan nú 2,7%. Undanfarna mánuði hefur hratt dregið úr almennum verðbólguþrýstingi. Verðbólgutaktur síðustu sex mánaða er þannig 2,4% á ársgrundvelli eða í takt við markmið Seðlabankans. Sé horft á undirliggjandi verðbólgu er verðbólgutakturinn lægri, 0,5-1,2% eftir því hvaða mælikvarða er horft á. Þetta kemur fram á vef ASÍ þar sem einnig finna má eftirfarandi umfjöllun.  

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% milli mánaða í nóvember og mælist verðbólga nú 4,8%. Sé horft framhjá áhrifum húsnæðiskostnaðar mælist verðbólgan nú 2,7%. Undanfarna mánuði hefur hratt dregið úr almennum verðbólguþrýstingi. Verðbólgutaktur síðustu sex mánaða er þannig 2,4% á ársgrundvelli eða í takt við markmið Seðlabankans. Sé horft á undirliggjandi verðbólgu er verðbólgutakturinn lægri, 0,5-1,2% eftir því hvaða mælikvarða er horft á.  

Þegar kjarasamningar voru undirritaðir í mars mældist árshækkun á yfir 80% undirliða vísitölu neysluverðs umfram verðbólgumarkmið. Það hlutfall hefur lækkað merkjanlega frá þeim tíma, mælist um 60% í nóvember sem endurspeglar aukin verðstöðugleika og það að verðbólga er drifin af færri þáttum en áður. Við undirritun kjarasamninga í mars hækkuðu almenn laun um 3,25% en frá þeim tíma vísitala neysluverðs hækkað um 2,3% og 1,1% án áhrifa húsnæðis. Kaupmáttur hefur þannig aukist frá því samningar voru gerðir.  

Húsnæðiskostnaður drifkraftur verðbólgunnar 

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hafði mest áhrif til hækkunar vísitölunnar í nóvember. Húsnæðiskostnaður hækkaði um 0,9% (0,17% vísitöluáhrif) en á móti lækkaði verð á flugfargjöldum til útlanda um 11,7% (-0,23% vísitöluáhrif).  

Í júní breytti Hagstofan aðferðafræði við útreikning húsnæðiskostnaðar eigenda en þá var skipt úr aðferð notendakostnaðar og í stað tekin upp aðferð húsaleiguígilda. Við breytinguna hefur dregið úr sveiflum við útreikning húsnæðiskostnaðar en það skýrist að því að raunvextir og húsnæðisverð hafa nú ekki bein áhrif á mældan húsnæðiskostnað. Í staðin hafa þær stærðir óbein áhrif í gegnum leiguverð sem nú eru notuð til að mæla húsnæðiskostnað eigenda. Húsnæðiskostnaðar er þó enn ráðandi þáttur í bæði ársverðbólgu og hækkunum mánaðarins og er hækkun í nóvember sú hæsta frá því ný aðferðafræði var tekin upp.  

Matvöruverð óbreytt milli mánaða 

Matvara lækkaði um 0,04% milli mánaða og var það í takt við mælingar Verðlagseftirlits ASÍ sem mældi 0,07% hækkun milli mánaða. Kemur það í kjölfar töluverðrar hækkunar í október sem skýrðist af hækkunum á kjötverði og á sælgæti. Það hefur hægt á hækkunartakti í matvöruverslunum undanfarin misseri sem skýrist m.a. af minni innfluttri verðbólgu og aukinni samkeppni milli matvöruverslana með innkomu Prís á markaðinn.  

Í síðustu viku tilkynnti peningastefnunefnd um 0,5 prósentu lækkun stýrivaxta. Var þetta önnur vaxtalækkun bankans, en í dag eru stýrivextir 8,5% en voru 9,25% þegar þeir voru hæstir. Hröð hjöðnun verðbólgu hefur skapað forsendur fyrir lækkun vaxta, en á sama tíma og verðbólgu hefur nærri helmingast hafa vextir lækkað um 0,75 prósentur. Þetta hefur þá þýðingu að raunvextir hafa hækkað til muna og eru í dag um 3,7%.