Verðlagseftirlit ASÍ kannaði nýlega verð á mjólkurvörum og í meirihluta af þeim 11 verslunum þar sem verðkönnunin fór fram í breyttist verð á mjólkurvöru lítið frá októberlokum 2023 til ársbyrjunar 2024. Í flestum verslunum voru verðbreytingar á mjólkurvöru innan við 1%, til hækkunar eða lækkunar. Mest hækkaði verð á mjólkurvöru í Iceland, eða um 4%. Verð lækkaði mest í Kjörbúðinni, eða um tæplega 5% og næst mest í Krambúðinni, 4%.
Fimm flokkar voru skoðaðir; skyr og jógúrt, rjómi, ostar og smjör, mjólk og jurtamjólk, og loks aðrar mjólkurvörur. Í síðastnefnda flokknum eru til dæmis prótein- og kaffidrykkir. Sá flokkur stóð í stað eða lækkaði í níu af ellefu verslunum og lækkaði mest í Kjörbúðinni (16%) og Krambúðinni (12%). Í Kjörbúðinni lækkaði verð í öðrum vöruflokkum um 1,1-2,6% og í Krambúðinni um 1-3,3%.