VelVirk - Jólin

Jólin eru tími gleði og eftirvæntingar hjá flestum og tengjast dýrmætum minningum úr æsku. Aðdragandi þeirra er oftast ljúfur, en þau eru jafnframt býsna stór viðburður og krefjast undirbúnings. Foreldrar með ung börn hafa mikið á sinni könnu, sérstök dagskrá tengd skólanum, föndur, bakstur og aðstoð við jólasveininn svo nokkuð sé nefnt.

En það er ekki nóg að sinna gjafainnkaupum, hreingerningu, skreytingum og flókinni matargerð á heimilinu, heldur er óvenju mikið um að vera í félagslífinu, margir fara á tónleika eða aðra listviðburði, í heimsóknir og hlaðborð með vinum, eða útbúa konfekt og laufabrauð með stórfjölskyldunni. Jólin teygja sig líka inn á flesta vinnustaði, það þarf að skreyta, kaupa leynivinagjafir og skrítnar peysur, sækja jólahlaðborð og aðrar uppákomur. 

Flest af ofangreindu er skemmtilegt og gefandi, en oft verður þetta aðeins of mikið og við finnum fyrir streitu sem stigmagnast fram yfir jóladag. Síðustu jól voru frábrugðin því sem við áttum að venjast, minna var um viðburði og meiri ró yfir öllu. Hver veit nema sú reynsla hafi kennt okkur sitthvað um látlausara jólahald. 

Hér er jólamyndband velvirk.is frá árinu 2018 til að minna á að stundum náum við ekki að gera allt.

Á heimasíðunni VelVirk má finna nokkur ráð sem gætu komið að gagni fyrir jólin.