VIRK veitir einu sinni á ári styrki til verkefna sem auka fjölbreytni og framboð úrræða í starfsendurhæfingu og styrki til rannsókna sem stuðla að uppbyggingu og auka við almenna þekkingu á starfsendurhæfingu á Íslandi.
Allar umsóknir sem bárust fyrir lok umsóknarfrests 15. febrúar sl. hlutu faglega umfjöllun hjá sérfræðingum VIRK og ákvarðanir um styrkveitingar voru í framhaldinu teknar af stjórn VIRK. Alls hlutu 25 aðilar styrk að þessu sinni, m.a. Grófin Geðrækt og Virkið á Akureyri.
Auk ofangreindra styrkja þá veitir VIRK styrki árlega til úrræða fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Þeim styrkjum verður næst úthlutað haustið 2025 og umsóknarfrestur er til og með 10. október á næsta ári. Sjá nánar um styrki VIRK.
Neðangreindir aðilar hlutu styrki:
Styrkir til þróunarverkefna
Styrkurinn er veittur til að taka þátt í þróun á vefútgáfu af hópinngripinu „Streita og kulnun- Birtingarmyndir og bjargráð“ sem er byggt á staðnámskeiði sem styrkþegar hafa haldið fyrir skjólstæðinga VIRK frá árinu 2020. Markhópurinn eru einstaklingar sem glíma við kulnun í starfi og/eða örmögnun í einkalífi og eru farnir að finna fyrir truflandi einkennum. Markmið er að ná til fleiri einstaklinga og auka aðgengi þeirra sem annars eiga ekki heimangengt í staðnámskeið.
Styrkurinn er veittur til að taka þátt í þróun á netnámskeiði sem yrði aðgengilegt pólskumælandi einstaklingum í þjónustu um allt land og byggir á staðnámskeiðinu „Stoðleið 1“ sem er stoðkerfisskóli og er í boði á bæði íslensku og pólsku. Námskeiðið hentar þeim sem eiga í erfiðleikum með hreyfingu eða ýmis störf vegna stoðkerfisvandamála, verkja og/eða þrekleysis.
Styrkurinn er veittur til að þróa úrræði fyrir konur sem eru með streitutengd stoðkerfiseinkenni i tengslum við álag, eftir meðgöngu/fæðingar eða hormónabreytingar (breytingaskeið). Einstaklingur fái aðstoð við að finna leiðir til að stunda hreyfingu með tilliti til þessara einkenna. Markmiði er að gera hreyfingu að sjálfsögðum parti af lífinu sem hefur jákvæð áhrif út ævina. Þannig nota þær hreyfingu til draga úr einkennum streitu og verkja auk þess að auka virkni í daglegu lífi, bæta sjálfsþekkingu og sýna sér mildi þegar þess þarf.
Styrkurinn er veittur til að þróa starfsmiðaða hugræna endurhæfingu (employment-focused cognitive rehabilitation) fyrir þá sem finna fyrir hugrænum vanda, hugrænni þreytu eða heilaþoku. Meðferðin hefur reynst árangursrík erlendis til að efla hugarstarf með það að markmiði að auka þátttöku einstaklinga á vinnumarkaði.
Styrkurinn er veittur til að þróa hópúrræði sem er sérsniðið fyrir þjónustuþega VIRK með áherslu á endurkomu til vinnu. Meginmarkmið þessa námskeiðs er að gefa einstaklingum tækifæri til að samhæfa þá færniþjálfun sem þeir hafa þegar fengið í gegnum endurhæfingu VIRK, bæta við bjargráðum og undirbúa markvisst endurkomu í vinnu. Tilgangur úrræðis er að valdefla þau sem eru að snúa aftur til vinnu með því að auka vitund um styrkleika og bjargráð sem þau búa yfir til að takast á við kveikjur, hindranir og bakslög sem geta komið upp og auka seiglu og álagsþol. Áhersla er lögð á yfirfærslu þekkingar og bjargráða úr starfsendurhæfingunni yfir í vinnuumhverfið.
Styrkurinn er veittur til að þróa endurhæfingarúrræði í formi þjálfunar og fræðslu á netinu til að fá einstaklinga til að tileinka sér hreyfingu í daglegu lífi. Búa til nýjan vana sem getur skilað sér í betri nálgun til hreyfingar til framtíðar. Oft þarf að byrja nógu hægt til að ná árangri. Notast verður við sérstakt snjallforrit og hannaðar öræfingar inná það sem hægt er að gera hvar sem er. Í gegnum snjallforritið er samtalshátt þar sem þátttakendur hafa aðgengi að sjúkraþjálfara eftir þörfum.
Styrkurinn er veittur til að þróa hópúrræði fyrir einstaklinga sem sýna einkenni þunglyndis, vanvirkni eða depurð. Unnið er útfrá hugmyndafræði atferlisvirkjunar eða Behavioral Activation (B.A.) sem er meðferðarnálgun innan hugrænnar atferlismeðferðar sem einblínir frekar á virkniþáttinn í stað hugræns endurmats. Hugræn atferlismeðferð er sú meðferð sem hefur verið hvað mest rannsökuð og hafa rannsóknir endurtekið sýnt fram á aukin árangur. Meðal annars er talið að þessi nálgun gæti hentað sérstaklega vel einstaklingum í yngri kantinum (19 til 29 ára).
Styrkurinn er veittur til að taka þátt í uppbyggingu og þróun á samfélagslegri taugaendurhæfingu sem verður ekki rekin í hagnaðarskyni. Stofnunin mun veita þjónustu fyrir einstaklinga með ákominn heilaskaða og mun hún skiptast í taugaendurhæfingarsvið og starfsendurhæfingarsvið fyrir þennan hóp. Megin markmiðið með verkefninu er að koma upp sérhæfðu starfsendurhæfingarsviði fyrir einstaklinga með ákominn heilaskaða.
Klúbburinn Geysir er atvinnumiðað endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir. Grundvallarmarkmið klúbbsins er að virkja félaga hans til starfa og koma þeim út í meiri samfélagsvirkni. Félagar í klúbbnum vinna samkvæmt skipulögðum vinnudegi og bera sameiginlega ábyrgð á rekstrinum með starfsfólki hans. Klúbburinn Geysir er gjaldfrjálst meðferðarúrræði. Mæting er frjáls og ekki háð neinum takmörkunum utan þess sem félagar eru tilbúnir að undirgangast.
Styrkurinn er veittur til að koma að uppbyggingu á úrræðinu „Karlar í skúrum“ í Vestmannaeyjum. Verkefnið „Karlar í skúrum“ er félagslegt virkniúrræði sem gefur karlmönnum stað og stund til þess að hittast og vinna að sameiginlegum og/eða eigin verkefnum á sínum eigin hraða. Markhópurinn eru allir karlmenn eldri en 18 ára sem standa utan vinnumarkaðarins, geta ekki unnið af einhverjum ástæðum eða þeir sem hafa náð ellilífeyrisaldri en geta og vilja ennþá leggja sitt af mörkum. Þetta er heilsueflandi verkefni þar sem heilsa og vellíðan karla er í fyrirrúmi og lögð er áhersla á að þátttakendur haldi sér við líkamlega, andlega og félagslega.
Geðræktar-og virknimiðstöðin Vesturafl hefur þjónustað íbúa á norðanverðum Vestfjörðum frá ársbyrjun 2007. Hlutverk hennar er fyrst og fremst að rjúfa félagslega einangrun og hvetja notendur til þátttöku í samfélaginu. Vesturafl er geðræktarmiðstöð þar sem boðið er upp á virkni og samveru og er opið alla virka daga. Aukin áhersla hefur verið lögð á ungt fólk (16-30 ára) og erum með fjölsmiðju í sama húsnæði og geðræktar/virknimiðstöðina. Þar er t.d. boðið upp á heimanámsaðstoð, verkefni í vinnustofu og ýmis störf við nytjamarkað og flöskumóttöku.
Bataskóli Íslands er samvinnuverkefni á vegum Reykjavíkurborgar og Geðhjálpar og hóf starfsemi sína haustið 2017. Bataskólinn heyrir undir úrræði hjá Virknihúsi Reykjavíkurborgar. Skólinn er fyrir alla 18 ára og eldri sem glíma við geðrænar áskoranir, aðstandendur fólks með geðrænar áskoranir og starfsfólk á heilbrigðis og velferðarsviði. Flestir sem sækja skólann eru þar vegna eigin áskorana. Skólinn er nemendum að kostnaðarlausu og eru kennd námskeið sem öll snúast um geðheilsu, bata og batahugmyndafræði. Markmiðið er að bjóða upp á netnámskeið fyrir þá sem eru á landsbyggðinni og þýða námskeið yfir á ensku.
Starfsemi Grófarinnar er byggð á hugmyndafræði valdeflingar, batanálgunar og jafningjasamskipta og stefnir að því að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata. Grófin er geðræktarstaður, opið, gjaldfrjálst úrræði fyrir fólk 18 ára og eldri, sem hefur upplifað geðræna erfiðleika og vill vinna að bata, með jafningjum í samvinnu við fagfólk Grófarinnar og reynda notendur. Grófin er einnig vettvangur fyrir aðstandendur og annað áhugafólk um geðrækt og geðheilbrigði. Tilgangur Grófarinnar er að efla geðheilsu og draga úr fordómum gagnvart fólki með vanda af geðrænum toga.
Virkið, þjónustu- og ráðgjafasetur er þverfaglegur samstarfsvettvangur fjórtán aðila á Akureyrar- og Eyjafjarðarsvæðinu og er meginmarkmiðið að grípa ungmenni sem falla milli kerfa og veita þeim heildstæðari þjónustu. Starfsemi Virkisins miðar að því að aðstoða ungmenni, á aldrinum 16-30 ára, sem þurfa á samfelldri þjónustu að halda atvinnuleitar, skólagöngu, endurhæfingar eða annarrar meðferðar. Virkið býður upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf með það að markmiði að bæta líðan og efla virkni ungmenna í samfélaginu. Úrræðið er opið og gjaldfrjálst fyrir einstaklinga á aldrinum 16-30 ára.
Klúbburinn Strókur er virkniúrræði sem hefur þau markmið að styðja við bataferli notenda heilbrigðiskerfisins, að fólk með geðræn vandamál fái úrræði við sitt hæfi, auka tengsl fólks sem glímir við geðraskanir og/eða félagslega einangrun og efla einstaklinginn til sjálfshjálpar, fyrirbyggja innlagnir og brjóta niður fordóma. Engar kvaðir eru lagðar á félaga klúbbsins og enginn kostnaður fylgir því að ganga í klúbbinn eða að taka þátt í þeim virkniúrræðum sem í boði eru 4 daga vikunnar.
Hlutverkasetur veitir, alla virka daga vikunnar, opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við heilsubrest sem hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra. Hlutverkasetur er virknimiðstöð. Staðurinn er öllum opinn og taka einstaklingar þátt af eigin forsendum. Staðurinn býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæðin. Sumir nýta staðinn sem hluta af starfsendurhæfingu aðrir til að viðhalda virkni og/eða vinna gegn félagslegri einangrun.
Félagasamtökin Hugarafl eru samtök fólks með geðraskanir og er notendastýrð starfsendurhæfing. Einstaklingar sem stunda endurhæfingu hjá Hugarafli getur sótt liði á dagskrá sem styðja við bataferli viðkomandi og síðar unnið að auknum tækifærum í samfélaginu, s.s. skólagöngu, atvinnu eða auknum lífsgæðum, ásamt því að fá stuðning hjá starfsmönnum Hugarafls. Fimm daga vikunnar er metnaðarfull dagskrá í boði og á hverjum fimmtudegi er haldin opinn kynning fyrir gesti og nýliða sem áhuga hafa á starfsseminni. Þátttaka í starfsemi Hugarafls er gjaldfrjáls og er fyrir alla, 18 ára og eldri, sem hafa áhuga á að vinna í geðheilsu sinni á eigin forsendum.
Styrkur ver veittur til verkefnisins „Frá vanvirkni til þátttöku“ sem er virkniúrræði sem miðar að nýrri nálgun á hvernig virkja má ungt fólk til þátttöku í samfélaginu eftir tímabil vanvirkni. Blandað verður saman hugmyndafræði “outreach youthwork” og virkniráðgjöf sem velferðarþjónustan hefur hingað til sinnt. Unga fólkinu verður mætt á þeirra forsendum og þau studd í gegnum þjónustukerfin í nærsamfélaginu ef þörf er á. Markmiðið er að til verði afurð fyrir sveitarfélag og/eða þjónustusvæði þar sem hægt er að aðlaga verkefnið að þörfum hvers og eins sveitarfélags/þjónustusvæði.
Fjölsmiðjan hefur verið starfsrækt frá árinu 2001. Markmið Fjölsmiðjunnar er að styrkja félagslega færni og efla einstaklinga í persónulegum vexti. Fjölsmiðjan er úrræði fyrir ungmenni á aldrinum 16–24 ára. Megin hlutverk er að undirbúa nemendur 16- 24 ára fyrir nám og vinnu. Fjölsmiðjan er fyrst og fremst virkniúrræði og viðurkennd framhaldsfræðsluaðili hjá Menntamálastofnun. Hjá Fjölsmiðjunni er opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir ungt fólk sem glíma við heilsubrest sem hindrar þátttöku þeirra í námi eða starfi.
Fjölsmiðjan á Suðurnesjum er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 16–24 ára sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Markmið Fjölsmiðjunnar er að hjálpa ungu fólki að finna sitt áhugasvið, öðlast starfsreynslu og þar með auka möguleika þess í atvinnulífinu eða í námi. Eitt höfuðverkefni Fjölsmiðjunnar er að auka virkni nemanna og fá þau til að brjóta niður múra óvirkni og félagslegrar einangrunar. Starfsemi Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum er með öllu gjaldfrjáls þeim einstaklingum sem njóta þjónustu hennar.
Endurhæfingarhúsið Hver er ætlað fyrir öryrkja og einstaklinga sem hafa misst vinnu vegna veikinda, slysa eða áfalla. Akraneskaupstaður rekur Hver og tilheyrir starfsemin Velferðar og mannréttindasviði kaupstaðarins. Helstu markmið Endurhæfingarhússins er að styðja við notendur sína til aukinna lífsgæða og þátttöku í samfélaginu. HVER er með opið alla virka daga þar sem hægt er að mæta sér að kostnaðarlausu og taka þátt í starfseminni. Hver er stundum fyrsta skrefið þar sem boðið er upp á snemmbært inngrip í formi virkni sem eykur líkur á að einstaklingar geti nýtt sér starfsendurhæfingu þegar hún er orðin viðeigandi.
Um er að ræða tveggja ára virkni- og valdeflingarverkefni fyrir konur sem eru á örorkulífeyri með barn/börn á framfæri. Markmið verkefnisins eru að þátttakendur bæti sjálfsmynd og trú á eigin getu, eflist í foreldrahlutverkinu og efli félagslegt tengslanet sitt svo koma megi í veg fyrir félagslega einangrun. Einnig að bæta félagsnet þátttakenda, virkja þær og kenna þeim til að vera virkar í samfélagsþátttöku með það markmiði að þær komist út á vinnumarkaðinn. Verkefnið er þátttakendum algjörlega að kostnaðarlausu en eingöngu konur sem eru á örorku fá boð um þátttöku.
Safn virkniúrræða sem styðja við, auka virkni og árangur í starfsendurhæfingu má finna á hér.
MetamorPhonics stendur fyrir viðamikilli starfsemi með starfsendurhæfingu á Íslandi og einstaklingum á meðan á endurhæfingu stendur og eftir að endurhæfingu lýkur. Flaggskipsverkefni MetamorPhonics á Íslandi eru stórhljómsveitin Korda Samfónía og starfsnám fyrir einstaklinga sem koma úr starfsendurhæfingu, en að auki rekur fyrirtækið Lagasmiðjur með starfsendurhæfingu í Hafnarfirði, á Suðurnesjum, Akranesi, Selfossi og á Ísafirði, sem lið í endurhæfingarúrræðum fyrrgreindra stofnana. Korda Samfónía skapar umhverfi til tónsköpunar fyrir tónlistarnemendur á háskólastigi og fólk sem er að byggja líf sitt upp á ný eftir ýmis áföll. Þátttakendur fá þjálfun sem nýtist á þverfaglegum vettvangi flestra starfsstétta, með því að efla sjálfstraust og auka jákvæða sjálfsmynd. Styrkurinn er veittur til verkefnisins Kordu Samfóníu og starfsnámi MetamorPhonics.
Um er að ræða reglulega ókeypis sálfræðiaðstoð við úkraínska flóttamenn á Íslandi á móðurmáli þeirra sem veitt er af eina sálfræðingnum á landinu sem talar málið og veitir þessa þjónustu á hverjum degi. Úrræðið byrjaði í mars 2022 og hafa yfir 250 manns fengið þessa þjónustu hjá henni sumir einu sinni en aðrir oftar. Um er að ræða bæði viðtöl á staðnum og svo í fjarfundarbúnaði. Þjónustan er ókeypis fyrir úkraínska flóttamenn og hjálpar þeim að aðlagast, finna hvata til að fara af félagslegum stuðningi og út á vinnumarkaðinn, viðhalda tilfinningalegu ástandi í nýju umhverfi, nýrri menningu og nýju starfi.
Ráðgjöf og félagslegur stuðningur til handa föngum, fyrrum föngum og aðstandendum. Starfsemin fer fram alla virka daga á skrifstofu félagsins í Holtagörðum. Þá sinnir vettvangsteymi Afstöðu lágþröskuldaþjónustu við þennan hóp með því að fara til skjólstæðingana hvort sé um að ræða fangelsi, Vernd áfangaheimili, dvalarstað og á skrifstofunni í Holtagörðum. Neyðarsími og lögfræðilegt álit stendur skjólstæðingunum til boða allan sólarhringinn.
Afstaða heldur úti fyrirtækjabanka þar sem er lista yfir fyrirtæki sem hafa áhuga á að taka fyrrum fanga í vinnu og er stefnt að því að virkja þennan lista enn frekar auk þess að safna fleiri fyrirtækjum á hann. Markmið verkefnisins er fyrst og fremst þau að vinna að tækifæri fyrir fanga til ábyrgðar, endurreisnar og að búa þeim skilyrði til farsællar endurkomu út í samfélag manna.