Á hverju ári er úthlutað styrkjum úr Minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar til verkefna sem varða sérstaklega íslenskan vinnumarkað, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar.
Í ár eru veittir fjórir styrkir úr sjóðnum og eru þeir eftirfarandi:
Alda Lóa Leifsdóttir fær 600.000 kr. til verkefnisins Huldukonur Íslands.
Verkefnið felst í því að safna saman og skrásetja persónulegar frásagnir erlendra verkakvenna af aðstæðum þeirra á íslenskum vinnumarkaði, kjörum, draumum og persónulegu lífi þeirra. Hluti viðtalanna hefur áður verið birtur en verkefnið felur í sér söfnun frekari frásagna til birtingar og vinnslu efnisins til leiklesturs jafnt á sviði sem til flutnings í ljósvakamiðlum.
Einar Þór Gunnlaugsson fær 1.000.00 kr. til undirbúnings heimildamyndarinnar Tólf tuttugu.
Heimildarmyndin „Tólf tuttugu“ segir m.a. frá kennaraverkfallinu 1995 og tengslum þess við atburði í íslensku samfélagi á síðasta áratug 20. aldar, þ.m.t. Þjóðarsátt á vinnumarkaði. Segja má að hún sé systur-mynd “Korter yfir sjö” (2021) sem fjallaði um verkfallið í Reykjavík árið 1955. Áætlað er að myndin verði frumsýnd á næsta ári.
Hanna Lind Garðarsdóttir fær 400.000 kr. til verkefnisins Upplifun flugliða af kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands við Icelandair: „Aðför að íslensku vinnufólki“
Rannsóknin er lokaverkefni í mastersnámi í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Verkefnið er eigindleg rannsókn á upplifun flugliða á kjaradeilu Icelandair og Flugfreyjufélagi Íslands og er unnin er undir leiðsögn Gylfa Dalmann Aðalsteinsonar, dósent. Rannsóknarspurningar varða leikreglur á íslenskum vinnumarkaði, afleiðingar fyrir starfmenn sem tjá sig opinberlega í kjarabaráttu og traust á milli starfsmanna og atvinnurekanda í kjölfar kjarabaráttu.
Íris Fanney Sindradóttir fær 400.000 kr. til verkefnisins Bótaábyrgð vinnuveitenda vegna uppsagna sem tengjast kynferðilegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Verkefnið er rannsókn og lokaverkefni í mastersnámi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík á sviði vinnuréttar. Í rannsókninni verður lögð áhersla á skyldur atvinnurekenda til að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Fjallað verður um jafnrétti á vinnumarkaði með hliðsjón af sögu og þróun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og bann við mismunun á grundvelli kyns sem telst til kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni.
Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar var stofnaður árið 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson, formann Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Sjóðurinn er í umsjá Alþýðusambands Íslands.