Trúnaðarmannanámskeiði, hluta 3, lauk í gær

Í gær lauk trúnaðarmannanámskeiði, 3. hluta, sem fram fór í sal félagsins á Akureyri. Námskeiðið hófst sl. mánudag og lauk, eins og áður segir, í gær. 11 trúnaðarmenn sátu námskeiðið, en nokkrir sem höfðu skráð sig gátu ekki mætt vegna Covid.

Leiðbeinendur að þessu sinni voru Bergþóra Hrönn Guðjónsdóttir, sérfræðingur í fræðslu- og kynningarmálum hjá ASÍ og Félagsmálaskóla Alþýðu, Gréta Stefánsdóttir, lögfræðingur hjá SGS, og Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ.

Stiklur um efnið sem farið var yfir að þessu sinni:

Megináhersla er lögð á helstu hagfræðihugtök í daglegu lífi og í kjarasamningagerð, s.s. kaupmátt launa, mun á hlutfallslegri hækkun eða krónutöluhækkun. Nemendur kynnast hvað þarf að hafa í huga við gerð samninga. Megináhersla er lögð á lög um vinnurétt og hvernig þau styðja kjarasamninga og hvernig íslenskur vinnumarkaður er upp byggður. Lögð er áhersla á rétt launamanna t.d. til fæðingarorlofs, atvinnuleysistrygginga og ýmis þau réttindi í lögum og reglugerðum sem íslenskur vinnumarkaður byggir á. Nemendur kynnast helstu hugtökum í samningtækni. Lögð er áhersla á eðli og markmið samninga, grunnatriði samningagerðar, hvernig hún er notuð í daglegu lífi við úrlausn mála sem koma inn á borð trúnaðarmanna.

Næstu námskeið

11. til 13. apríl verður 4. hluti kenndur og svo verður aftur boðið upp á námskeið næsta haust. Fljótlega verða send bréf á þá trúnaðarmenn sem eiga eftir að sitja hluta 4. Námskeiðin eru trúnaðarmönnum að kostnaðarlausu.

Þeir trúnaðarmenn félagsins sem vilja sækja námskeiðin eru vinsamlegast beðnir að tilkynna þátttöku sína til félagsins í síma 460 3600 eða á netfangið ein@ein.is 

Sjá nánar hér