Trúnaðarmannanámskeið á vorönn

Vert er að benda trúnaðarmönnum á að búið er að raða niður trúnaðarmannanámskeiðum fyrir vorönn. Félagsmálaskóli alþýðu sér um námskeiðin, en hann er starfræktur af Alþýðusambandi Íslands og BSRB. Tilgangur námsins er að auðvelda trúnaðarmönnum að takast á við verkefni sem þeim eru falin, að þeir efli sjálfstraust sitt og lífsleikni auk þess að námið stuðli að jákvæðu viðhorfi til áframhaldandi náms.  Hlutverk skólans er að auka þekkingu talsmanna stéttarfélaga og efla þá í starfi til þess að þeir séu betur í stakk búnir að vinna að bættum lífskjörum launafólks.

Er nær dregur námskeiðum verða send bréf á þá trúnaðarmenn sem geta skráð sig á viðkomandi námskeið. Námskeiðin fara fram í sal Einingar-Iðju, Skipagötu 14 á Akureyri. 

Vorönn 2023

Hluti 1

22. til 24. mars

Hluti 2

26. til 28. apríl

Hluti 3

25. til 27. janúar

Hluti 4

15. til 17. febrúar

 

Trúnaðarmenn Einingar-Iðju eru mikilvægir hlekkir í starfi félagsins. Samkvæmt samningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa 5 eða fleiri félagsmenn. Þar sem starfa fleiri en 50 eiga að vera 2 trúnaðarmenn. 

Við kosningu öðlast trúnaðarmaður um leið sérstaka lagalega vernd í starfi sínu, fær umboð félagsins til að fara með mál annarra og verður fulltrúi þess á vinnustaðnum. Meginhlutverk trúnaðarmanna er að gæta þess að lög og samningar séu haldnir á vinnustaðnum og vera tengiliður starfsmanna við stéttarfélagið. 

Trúnaðarmenn eiga samningsbundinn rétt til að sækja námskeið án launaskerðingar en þurfa að sjálfsögðu að sækja námskeiðin í samráði við yfirmann sinn. 

Ef það er ekki trúnaðarmaður á þínum vinnustað hafðu þá samband við skrifstofu Einingar-Iðju og við skipuleggjum kosningu.