Ný grein eftir Kristínu Hebu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins.
Starfsaðstæður ræstingafólks hafa verið til umræðu undanfarna daga í kjölfar fréttaflutnings RÚV um kjarasamningsbrot og slæmar starfsaðstæður þeirra. Í síðustu kjarasamningum var lögð sérstök áhersla á að leiðrétta kjör ræstingafólks og var það ekki að ástæðulausu.
Hver eru áhrif aukinnar útvistunnar starfa?
Á undanförnum árum og áratugum hafa orðið miklar breytingar á starfsumhverfi þeirra sem starfa við ræstingar. Áður fyrr voru ræstingar hluti þeirra verkefna sem þurfti að inna af hendi innan hvers og eins vinnustaðar. Ræstingar eru nú í síauknum mæli boðnar út og þannig hefur hluta af starfsemi fyrirtækja og stofnana verið útvistað til einkaaðila. Þessar miklu breytingar hafa átt sér stað án þess að staldrað hafi verið við og hugað að áhrifum breytinganna á starfsfólkið.
Konur og innflytjendur bera uppi ræstingar
Varða- Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins kannaði fjárhagsstöðu, heilsu og réttindabrot meðal þeirra sem starfa við ræstingar og gaf út skýrslu um aðstæður þessa hóps árið 2023. Niðurstöðurnar eru áhugaverðar fyrir margra hluta sakir. Samsetning þeirra sem starfa við ræstingar er mjög svo frábrugðin því sem almennt gerist. Ræstingum sinna fyrst og fremst konur (74%) og innflytjendur (78%) auk þess sem umtalsvert hærra hlutfall er með annan húðlit en hvítan (11%) samanborið við það sem almennt sést meðal launafólks innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB. Þetta eru allt hópar sem rannsóknir Vörðu hafa sýnt að hallar á.
Slæm fjárhagsstaða ræstingafólks
Fjárhagsstaða þeirra sem starfa við ræstingar er verri en annars launafólks á öllum þeim mælikvörðum sem notaðir voru í könnuninni. Niðurstöðurnar sýna meðal annars að tæplega fimmtungur ræstingafólks býr við efnislegan eða verulegan efnislegan skort eða fátækt (18%) og einungis þrír af hverjum tíu gætu mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skulda. Helmingur þeirra sem starfa við ræstingar býr í leiguhúsnæði á almennum leigumarkaði og er það umtalsvert hærra hlutfall en almennt meðal launafólks (50% á móti 18%). Rannsóknir Vörðu hafa sýnt að fólk sem er á leigumarkaði er líklegra en þau sem eru í eigin húsnæði til að hafa flutt oftar en þrisvar sinnum á síðastliðnum fimm árum (32% á móti 5%), búa í aukaíbúð, herbergi, bílskúr, atvinnu- eða verslunarhúsnæði eða annarskonar húsnæði (30% á móti 3%) og búa við þyngri byrði af húsnæðiskostnaði.
Tæplega helmingur ræstingafólks með slæma andlega líðan
Heilsa þeirra sem starfa við ræstingar mælist auk þess verri en annars launafólks. Hærra hlutfall ræstingafólks metur líkamlega heilsu sína mjög eða frekar slæma (22% á móti 15%) og andleg heilsa mælist umtalsvert verri. Þannig finnur um þriðjungur ræstingafólks nánast daglega fyrir þreytu og orkuleysi (37%) og fyrir svefnerfiðleikum (32%). Um fjórðungur finnur fyrir litlum áhuga eða gleði í daglegu lífi sínu (23%) og hafa verið niðurdregin eða döpur nánast daglega (25%). Raunar mælist tæplega helmingur þeirra sem starfa við ræstingar með slæma andlega heilsu (46%).
Sú vegferð að leiðrétta kjör þeirra sem starfa við ræstingar í síðustu kjarasamningum vakti von í brjósti um að með samhentu átaki væri hægt að lyfta ákveðnum starfsstéttum og bæta starfs- og lífsskilyrði þeirra. Fréttir síðustu daga eru því vægt til orða tekið mikil vonbrigði en mun vonandi verða vakning til yfirvalda og fyrirtækja um að vinna markvisst að því að leiðrétta þá stöðu sem gögnin sýna að þessi hópur býr við.