Tökum höndum saman - Herferð gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum

Vinnueftirlitið boðar aðgerðavakningu gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum undir yfirskriftinni #Tökum höndum saman. Til­gang­ur­inn er að hvetja vinnustaði til að grípa til aðgerða með for­vörn­um, fræðslu og mark­viss­um viðbrögðum þegar slík mál koma upp.

Nýtt fræðsluefni og verkfæri hafa verið þróuð og er aðgengilegt á vef Vinnueftirlitsins, til að mynda mynd­skeið um birt­inga­mynd­ir og af­leiðing­ar kyn­ferðis­legr­ar áreitni og æski­leg viðbrögð vinnustaða og starfs­fólks þegar slík mál koma upp. Einnig er hægt að nálg­ast nýtt sta­f­rænt flæðirit fyr­ir vinnustaði sem skýr­ir fer­il máls með mynd­ræn­um hætti, en því fylg­ir gátlisti um mik­il­væg atriði sem þarf að hafa í huga til að tryggja góða málsmeðferð. Bæði fyr­ir ætlaða þolend­ur og gerend­ur.

Verk­efn­­ið er aðgerðavakning og unn­ið í samstarfi við sam­tök aðila vinnu­markaðar­ins, embætti land­lækn­is, Jafn­rétt­is­stofu og fé­lags- og vinnu­markaðsráðuneytið.

Með aðgerðavakningunni viljum við hvetja vinnustaði til að gefa skýr skilaboð um að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin og að brugðist verði við gerist þess þörf.“ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins. „Það er til mikils að vinna því kynferðisleg áreitni getur valdið starfsfólki heilsutjóni og haft neikvæð áhrif á árangur, framleiðni og orðspor vinnustaða.

Sara Hlín Hálfdanardóttir, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu sem leiðir verkefnið fyrir hönd stofnunarinnar, vonar að stjórnendur og starfsfólk geti nýtt sér verkfærin svo fyrirbyggja megi kynferðislega áreitni á íslenskum vinnumarkaði: „Við höfum átt gott samstarf við alla þá sem standa að þessu mikilvæga verkefni með okkur en markmiðið er að við náum að endurspegla þarfir sem flestra vinnustaða í þessu tilliti. Heilbrigð vinnustaðamenning leggur grunninn að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi og stuðlar að því að öll komi heil heim. Við vonumst til að verkfærin veiti stjórnendum og starfsfólki nauðsynlegar upplýsingar og stuðning til að grípa til aðgerða og hvetjum öll til að taka höndum saman gegn kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Sjónvarpsauglýsing
Hér má finna nýja sjónvarpsauglýsingu sem ætlað er að vekja athygli almennings og stjórnenda á vinnustöðum á aðgerðarvakningunni og þeim verkfærum sem til staðar eru til að bregðast við kynferðislegri áreitni.