Yfir 20 manns, sem starfa hjá ræstingarfyrirtækjunum Hreint og Dögum, hafa leitað til Einingar-Iðju vegna lækkunar launa. Álagið er ómanneskjulegt og fólki hefur verið hótað uppsögn, samþykki það ekki lækkunina, segir varaformaður Einingar-Iðju í frétt á ruv.is sl. laugardag.
Í kjarasamningum ræstingarfólks er ákvæði sem kallast tímamæld ákvæðisvinna, en samkvæmt því er gert ráð fyrir að starfsfólkið klári tiltekin þrif innan ákveðinna tímamarka, sem yfirleitt kalli á aukinn vinnuhraða. Fyrir það á að greiða 20% álag ofan á tímakaup.
Yfir 20 manns hafa leitað til stéttafélagsins Einingar-Iðju vegna þess að þau fá ekki álagsgreiðsluna, bara hefðbundið tímakaup, þrátt fyrir að þurfa að klára þrifin innan tímamarka.
„Það er töluvert stór hópur sem hefur leitað til okkar og þau hafa miklar áhyggjur af sinni afkomu sem ræstingarfyrirtækin eru á, þar sem verið er að lækka laun þeirra um 20%,“ segir Tryggvi Jóhannson varaformaður Einingar-Iðju.
„Þau hafa miklar áhyggjur af því hvort þetta sé löglegt og hvort svona hreinlega megi bara á Íslandi,“ segir hann.
Þá séu lýsingar af vinnuaðstæðum líka afar slæmar. „Ég hef heyrt þær lýsingar að þetta sé ómanneskjulegt álag og það er ljóst á þeim gögnum sem við höfum undir höndum að álagið mun ekki minnka, það er einungis verið að lækka laun,“ segir Tryggvi.
„Fólk er þreytt, mjög bugað og þau samtöl sem ég hef átt með okkar félagsmönnum, þessi mál eru mjög erfið og fólk er reitt og sárt, og jafnvel grætur í þessum samtölum og finnst illa með sig farið,“ segir Tryggvi.
Fólkið, sem leitað hefur til Einingar-Iðju, starfar allt annað hvort hjá Dögum eða Hreint. Bæði eru stór ræstingarfyrirtæki. „Í okkar augum er þetta nokkuð borðleggjandi. Ég hef reynt að fá svör frá þessum fyrirtækjum en þau svör eru í besta falli útúrsnúningar,“ segir hann.
Forsvarsfólk Einingar-Iðju hafi því sett sig í samband við Akureyrarbæ, en starfsfólk þessara fyrirtækja þrífur til að mynda skóla bæjarins. „Við erum í mjög góðu og þéttu samtali við Akureyrarbæ og bærinn lítur þetta mál mjög alvarlegum augum og það er til skoðunar,“ segir Tryggvi.
Tryggvi segir að á fundi með félagsfólki Einingar-Iðju, sem starfar hjá Dögum, hafi komið í ljós að fólk hafi neyðst til að taka á sig lækkunina.
Fólkið sem leitað hefur til Einingar-Iðju býr allt á Norðurlandi en Dagar eru til að mynda með 750 starfsmenn um allt land. „Þetta hlýtur að vera gífurlegur fjöldi sem er að lenda í þessu á landsvísu og þetta er mjög alvarlegt mál,“ segir Tryggvi.
„Þarna er verið að fara í frekar láglaunuð störf og það eru aðallega konur í þessari stétt. Mér finnst þetta ekki ríma mjög fallega inn í þá umræðu og stöðu sem er í þjóðfélaginu okkar í dag,“ segir Tryggvi.
Sjá einnig: