Í síðustu viku samþykkti Stapi lífeyrissjóður tillögur sem lagðar voru fyrir fundi skuldabréfaeigenda Íbúðabréfa um uppgjör HFF34 og HFF44 bréfa. Tillögurnar voru afurð samstarfs 18 lífeyrissjóða sem Stapi átti aðild að, en ráðgjafar á vegum hópsins hafa frá febrúar 2024 átt í viðræðum við viðræðunefnd fjármála- og efnahagsráðherra. Ríflega 80% eigenda að kröfufjárhæð sem greiddu atkvæði um HFF34 og HFF44 flokkana, samþykktu tillöguna sem telst þá bindandi fyrir alla eigendur til jafns.
Íbúðabréf nema í dag rúmlega 7% af heildareignasafni Stapa lífeyrissjóðs eða sem nemur 28 mö.kr. Ákvörðun Stapa er niðurstaða ítarlegrar greiningar starfsmanna og stjórnar á tillögunni og áhrifum hennar m.a. á framkvæmd fjárfestingarstefnu, áhættuþætti í rekstri sjóðsins og tryggingafræðilega stöðu. Tillagan felur í sér að ÍL-sjóði verði heimilt að afhenda kröfuhöfum safn ríkisskuldabréfa, annarra skuldabréfa og reiðufjár sem greiðslu fyrir Íbúðabréf.
Nú þegar að tillagan hefur verið samþykkt á fundi skuldabréfaeigenda kemur málið til kasta Alþingis sem þarf að samþykkja fjáraukalög svo að unnt verði að framkvæma uppgjörið samkvæmt tillögunni. Heimild til uppgjörs samkvæmt tillögunni fellur úr gildi 14. júní.