Vert er að minna félagsmenn aftur á að nú er opin könnun um stöðu launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Er þetta í þriðja sinn sem könnunin er framkvæmd af Vörðu rannsóknarsetri sem er í eigu ASÍ og BSRB.
Í ár er lögð sérstök áhersla á að afla upplýsinga um fjárhagsstöðu félaga, andlega og líkamlega líðan, kulnun og brot á vinnumarkaði. Nú sem endranær er rík áhersla lögð á að kortleggja fjárhagslega stöðu og er markmið Vörðu að greina hana meðal annars eftir stöðu fólks á húsnæðismarkaði. Þar verður greind staða leigjenda og þeirra sem eru í eigin húsnæði. Einnig verður kannað hvort að fjárhagsstaða launafólks sé mismunandi eftir því hvernig húsnæðislán félagsfólk er með.
Það tekur aðeins um 15 mínútur að svara könnuninni og ekki er hægt að rekja svör til einstaklinga. Við hvetjum allt félagsfólk til að taka þátt í könnuninni, enda afar mikilvægt að fá sjónarmið sem flestra til að niðurstöðurnar nýtist sem best við að móta og styðja við kröfur verkalýðshreyfingarinnar.
Framkvæmd könnunarinnar er alfarið í höndum Vörðu, sem sér um hönnun spurninga, uppsetningu, framkvæmd og úrvinnslu á niðurstöðum.