Nýútkomin skýrsla Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins um lífsskilyrði launafólks var birt í dag. Niðurstöður byggja á rannsókn sem náði til félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB – heildarsamtaka stéttafélaga starfsmanna í almannaþjónustu. Þetta er fjórða árið í röð sem könnun á lífsskilyrðum launafólks er gerð og hefur fjöldi svara aldrei verið meiri en nú en yfir 21.000 svör bárust. Almennt gefur skýrslan til kynna að staða launafólks er heilt yfir sambærileg stöðu þess fyrir ári síðan, en verri en árið 2022.
Helstu niðurstöður benda til þess að grípa þurfi til aðgerða til að bæta stöðu tiltekinna hópa samfélagsins. Þar má sérstaklega nefna þrjá þætti:
Staða foreldra versnar milli ára en samkvæmt rannsókninni býr barnafólk almennt við þyngri byrði húsnæðiskostnaðar en barnlausir, hærra hlutfall foreldra hefur ekki efni á grunnþáttum fyrir börnin sín, en í fyrra og eru þeir líklegri til að vera með yfirdrátt en aðrir. Þá býr tæplega fjórðungur einhleypra foreldra við efnislegan skort og ríflega sex af hverjum tíu einhleypum mæðrum gætu ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum.
Fjárhagsstaða kvenna er verri en karla á öllum heildarmælikvörðum og konur eru háðari maka um framfærslu en karlar. Andleg heilsa ungra kvenna, einhleypra mæðra er auk þess áberandi verri en annarra hópa en ríflega helmingur þeirra býr við slæma andlega heilsu.
Staða innflytjenda mælist markvert verri en innfæddra Íslendinga fjórða árið í röð. Hærra hlutfall þeirra erfitt með að ná endum saman, getur ekki mætt óvæntum útgjöldum og hafa ekki getað greitt fyrir grunnþætti fyrir börnin sín. Auk þess er staða innflytjenda á húsnæðismarkaði gjörólík stöðu innfæddra. Innflytjendur eru í mun minna mæli í eigin húsnæði, búa við þyngri húsnæðisbyrði og hafa oftar flutt og búa í meira mæli í húsnæði sem hentar illa. Meira en helmingur innflytjenda á Íslandi sér fyrir sér að setjast hér að til frambúðar.
Í skýrslunni er að finna ítarlega greiningu á niðurstöðum rannsóknarinnar. Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.