Slökkt á formanni Einingar-Iðju í miðri setningu

Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju, er vægast sagt ósátt eftir fund á vegum Akureyrarbæjar um…
Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju, er vægast sagt ósátt eftir fund á vegum Akureyrarbæjar um leikskólamál

Vert er að benda á frétt sem birtist fyrr í dag á Akureyri.net þar sem sagt er frá þeirri óboðlegu framkomu í garð formanns félagsins að slökkt var á henni í miðri setningu á rafrænum fundi í vikunni þar sem verið var að kynna umfangsmiklar breytingar á gjaldskrá leikskóla Akureyrarbæjar.

Á fundunum voru Heimir Örn Árnason, formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs, Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs, og Kristín Baldvinsdóttir, forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar hjá Akureyrarbæ. Eftir kynningu á nýsamþykktum breytingum á gjaldskrá leikskólanna var boðið upp á fyrirspurnir þar sem fólk gat „rétt upp hönd“ í Teams og fengið orðið. Fyrirspurnatíminn þróaðist ef til vill ekki alveg eins og fundarboðendur vonuðust til. Formaður Einingar-Iðju lét í sér heyra, var mjög gagnrýnin á þessar breytingar og var útilokuð frá frekari umræðum. 

Málinu alls ekki lokið
Anna segir málinu alls ekki lokið af sinni hálfu eða Einingar-Iðju. „Við munum mótmæla þessu kröftuglega og munum biðja um fund með bæjarstjóra og þeim sem hafa með þetta að gera hjá bæjaryfirvöldum. Við munum ekki þegja vegna þess að þetta skiptir fólk miklu máli. Þó Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað að leikskólaplássin yrðu gjaldfrjáls þá eru þetta bara algjör svik,“ segir Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju.

Hún bætti við að endingu: „Nú hefur mér verið sagt að á fundi hjá meirihlutanum í gær hafi komið fram að allir hefðu verið rosalega ánægðir með fundinn, nema hvað þurft hefði að þagga niður í einni brjálaðri kerlingu! Mér finnst þetta mikil kvenfyrirlitning og er virkilega reið.“ 

Fréttina í heild á Akureyri.net