Skila auðu í fjárlögum

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) segir í nýrri umsögn um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að ekki verði betur séð en stjórnvöld hafi ákveðið „að skila auðu í að bæta afkomu heimila”. Stefnumörkun sem ASÍ hafi varað við í fyrri umsögnum birtist í fjárlagafrumvarpinu og áherslur stjórnvalda séu ekki fallnar til að stuðla að sátt á vinnumarkaði.  

Í umsögninni er rifjað upp að ASÍ hafi í umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar varað við því að farin yrði leið niðurskurðar og aukinna álaga á heimili. Sú leið myndi ekki leggja grunn að stöðugleika á vinnumarkaði. Sú stefnumörkun sem ASÍ hafi varaði við birtist nú í frumvarpi til fjárlaga.Tekjuöflun felist einkum í hækkun gjalda (krónutölugjöld og nefskattar) og aukinni skattlagningu á ökutæki og notkun bifreiða. Á útgjaldahlið sé fjárfestingum frestað, aðhald aukið og framlög lækkuð að raunvirði til mikilvægra málaflokka. 

Í umsögninni er bent á að ekki sé að finna í fjármálafrumvarpinu þær umbætur sem nauðsynlegar séu á sviði velferðar- og húsnæðismála. Áherslan sé á að auka byrðar launafólks. Þá kemur fram að þörf á aukinni gjaldheimtu gagnvart almenningi skýrist að hluta af lækkun bankaskatts og hækkun frítekjumarks fjármagnstekna. Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi fyrst og fremst þjónað sérhagsmunum fjármagnsins og hinna tekjuháu í samfélaginu.  

Í umsögninni er lýst áhyggjum af vaxtahækkunum Seðlabanka Íslands sem hafi veruleg áhrif á afkomu heimila. Fjárhæðir vaxtabótakerfisins hafi ekki haldið í við þróun launa og eignaverðs. 

Þá telur Alþýðusambandið gagnrýnivert að bætur atvinnuleysistrygginga hafi ekki verið hækkaðar til jafns við þróun bóta almannatrygginga. 

Umsögn ASÍ um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar má nálgast hér.