Vert er að benda félagsmönnum á þetta námskeið hjá SÍMEY sem verður í næstu viku. Með því að smella á heiti námskeiðsins hér fyrir neðan má bæði skrá sig og fá nánari upplýsingar um það.
Þín hleðsla – Vefnámskeið, kennt 23. nóvember milli kl. 17.00 og 18:15. Leiðbeinendur: Margrét Lára Viðarsdóttir, sálfræðingur og íþróttafræðingur, og Einar Örn Guðmundsson sjúkraþjálfari. Þau reka fyrirtækið Sjálfsagi sem býður upp á fræðslu um andlegt og líkamlegt heilbrigði.
Í þessum fyrirlestri fer Einar Örn sjúkraþjálfari yfir áhrif langvarandi álags á taugakerfið og hvernig hægt sé að vinna að forvörnum þegar kemur að álagsstjórnun. Einnig fer hann yfir algeng stoðkerfisvandamál sökum kyrrsetu eða einhæfrar vinnu og hvernig draga megi úr þeim einkennum með sjálfsmeðferð og betri líkamsvitund.
Margrét Lára sálfræðingur og íþróttafræðingur fer yfir nokkra þætti til að byggja upp andlegan styrk og auka þar með líkurnar á betri andlegri heilsu til þess að takast á við álag, erfiðleika, streitu eða mótlæti.
Félagsmenn í stéttarfélögunum Einingu-Iðju, Kili og Sameyki sækja fjölmörg námskeið sér að kostnaðarlausu. Námskeiðin eru öllum opin og minnir SÍMEY aðra en félagsmenn þessara félaga á að kanna rétt sinn hjá sínu stéttarfélagi.