Á vef SÍMEY má finna eftirfarandi frétt þar sem fjallað er um námskeið í tæknilæsi fyrir sextíu ára og eldri.
Síðastliðið vor var ýtt úr vör á starfssvæði SÍMEY námskeiðum í tæknilæsi fyrir sextíu ára og eldri. Námskeiðin eru hluti af landsátaki, kostað af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og þátttakendum að kostnaðarlausu, til þess að efla tæknilæsi fólks.
Í þessum landsfjórðungi er Þekkingarmiðstöð Þingeyinga ábyrgðaraðili þessa verkefnis og sér um námskeiðahaldið á sínu starfssvæði en SÍMEY sér um námskeiðin í Eyjafirði, í samstarfi við Þekkingarmiðstöðina. Leiðbeinandi á námskeiðunum er Snæbjörn Sigurðarson.
Sem fyrr segir hófust þessi námskeið sl. vor og aftur var þráðurinn tekinn upp núna á haustönn. Sif Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, sem heldur utan um námskeiðin, segir að í haust hafi verið haldin slík námskeið á Dalvík, í Fjallabyggð, Akureyri, Grenivík og Svalbarðsströnd og framundan séu námskeið í Hörgársveit og á Akureyri.
Þessum námskeiðum, sem Sif segir að hafi gengið mjög vel og mikil ánægja sé með, er ætlað að auka þekkingu fólks 60+ í notkun nútíma tæknilausna og er þá ekki síst horft til notkun snjallsímans og spjaldtölva og hvernig sé unnt að nota þessi tæki í rafrænum samskiptum, t.d. tölvupóst, á samfélagsmiðlum, í netverslun, heimabanka, o.s.frv.
Hámarksfjöldi þátttakenda á hverju námskeiði er 8 manns, einfaldlega vegna þess að hér er að hluta til áhersla á einstaklingskennslu, þannig að hver og einn þátttakandi fái sem mest út úr námskeiðunum.
Sif segir að þetta átak stjórnvalda hafi miðast við þetta ár og það hafi sannarlega sýnt sig að þörfin sé mikil. Æskilegt sé að framhald verði á til þess að mæta eftirspurninni. Hvert námskeið er í átta klukkustundir, í fjórum tveggja klukkustunda lotum.