SGS vísar kjaradeilu við sveitarfélögin til ríkissáttasemjara

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) telur einsýnt að ekki verði komist lengra í viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna endurnýjunar kjarasamnings sem rann út 31. mars 2024. Samningsaðilar hafa átt fjölmarga fundi á undanförnum vikum og mánuðum þar sem SGS hefur komið kröfum sínum málefnalega á framfæri við samninganefnd sveitarfélaganna, en því miður hafa þau fundahöld ekki skilað niðurstöðu sem SGS getur sætt sig við.

Starfsgreinasamband Íslands var og hefur verið leiðandi í mótun á launastefnu í yfirstandandi kjarasamningslotu og leggur sambandið mikla áherslu á að sú launastefna sem mótuð var við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði 7. mars sl. haldi sér.

Í ljósi þess hversu langt er á milli aðila lítur SGS svo á að ekkert annað sé í stöðunni en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. SGS bindur vonir við að ríkissáttasemjari boði til fundar eins fljótt og auðið er, enda óásættanlegt að launafólk bíði mánuðum saman eftir sanngjörnum kjarabótum.