SGS - Metþátttaka á fræðsludögum starfsfólks

Dagana 19. og 20. september sl. stóð Starfsgreinasambandið fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk aðildarfélaga sambandsins og voru þeir að þessu sinni haldnir á Fosshótelinu í Stykkishólmi. Mætingin í ár var með besta móti. Um 40 fróðleiksfúsir fulltrúar, þar af fjórir frá Einingu-Iðju, mættu frá aðildarfélögum sambandsins, en aldrei áður hafa fleiri þátttakendur skráð sig til leiks.

Á heimasíðu SGS segir að lagt hafi verið upp með að hafa dagskrána sem gagnlegasta og því var leitað til þátttakenda eftir hugmyndum. Fyrri dagurinn var nýttur í hópavinnu þar sem fjölmörk málefni voru tekin til líflegrar umræðu, þ.á.m. vinnustaðaeftirlit, upplýsingamiðlun sem og kjara- og sjóðamál félaganna. Þá flutti Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI afar fróðlegt erindi um opin, skapandi og gefandi samskipti - erindi sem kallaði á virka þátttöku þátttakenda og fékk þá til að stíga út fyrir þægindarrammann. Síðari daginn hélt svo hópavinnan áfram með tilheyrandi kynningum. Árni Steinar, sérfræðingur SGS, átti svo lokaorðin, en hann fræddi þátttakendur um styrkjamál félaganna.

Fræðsludagar SGS hafa fyrir löngu SGS sannað gildi sitt enda orðnir órjúfanlegur partur af starfsemi sambandsins ár hvert. Dagar sem þessir eru mikilvægir fyrir starfsfólk félaganna, ekki síst varðandi félagslega þáttinn, þ.e. að fólk allsstaðar af landinu komi saman til að kynnast betur, fræðast og eiga skemmtilegar stundir. 

Meðfylgjandi eru nokkrar vel valdar myndir af heimasíðu SGS frá fræðsludögunum.