Samráðsfundur ASÍ og SA í lífeyrismálum

Mánudaginn 27. maí sl. var haldinn kjarasamningsbundinn samráðsfundur ASÍ og SA um lífeyrismál í Húsi atvinnulífsins í Reykjavík. 

Fundinn sat stjórnarfólk og framkvæmdastjórar þeirra sjö lífeyrissjóða sem eru á samningssviði SA og ASÍ auk fulltrúa í forystu og lífeyrisnefndum ASÍ og SA, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða og þeirra tryggingastærðfræðinga sem starfa fyrir sjóðina.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, opnaði fundinn með stuttu ávarpi þar sem hú nminnti á mikilvægi lífeyriskerfisins.

Arnar Sigurmundsson, ráðgjafi SA í lífeyrismálum, stýrði fundinum og fór yfir samantekt um stöðu samtryggingadeilda sjö lífeyrissjóða sem eru á samningssviði ASÍ-SA og mynda rúmlega 50% af heildareignum þeirra 19 lífeyrissjóða sem starfa hér á landi árið 2023.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fór yfir kynningu á frumvarpi um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu. Að lokinni yfirferð ráðherra var opnað fyrir umræðu og fyrirspurnir. Fram komu nokkrar fyrirspurnir um væntanlegar breytingar og áhrif þeirra á starfsemi lífeyrissjóða. Þessar breytingar hafa fengið jákvæð viðbrögð lífeyrissjóða, LL og bakhjörlum þeirra. Ýmsu er þó ósvarað um áhrif og framkvæmd væntanlegra breytinga og beindust spurningar meðal annars að sérstöku framlagi á fjárlögum af tryggingagjaldi atvinnulífsins sem ætlað er til jöfnunar örorkubyrði milli lífeyrissjóða og áhrif þeirra á víxlverkun örorkulífeyris milli Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða frá 2011. Þess er vænst að Alþingi takist að ljúka meðferð málsins og það verði að lögum fyrir þinghlé um miðjan júní nk. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi eftir rúmlega eitt ár.

Tilgreind séreign

Að lokum fór Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, yfir tilgreinda séreign – skyldutryggingu í óvissuferð. Að loknu erindi Jóhanns Steinar spruttu umræður fram um erfiða stöðu íslenskra lífeyrissjóða í samkeppni við þýsk tryggingarfélög. Þetta er mjög stórt hagsmunamál fyrir sjóðfélaga og lífeyrissjóðina, en tilgreind séreign er hluti af lágmarkstryggingavernd. Þetta mál kallar á ríka samstöðu lífeyrissjóða sem er sannarlega til staðar og einnig á beina aðkomu bakhjarla sjóðanna. Það er mjög aðkallandi að niðurstaða fáist í málið sem fyrst og kom fram að Landssamtök lífeyrissjóða unnu viðamikla greinargerð um málið sem var send fjármála- og efnahagsráðherra í apríl sl.

Næsti fundur samráðshópsins verður í umsjá lífeyrisnefndar ASÍ og fer fram næsta haust.