Á ruv.is má finna eftirfarandi frétt þar sem segir að Samkeppniseftirlitið hefur hafið rannsókn á hugsanlegum samkeppnislagabrotum í tengslum við stofnun stéttarfélagsins Virðingar. Meint brot teljast alvarleg og geta varðað sektum eða fangelsi.
Samkeppniseftirlitið hefur hafið formlega rannsókn á meintum samkeppnislagabrotum fyrirtækja sem starfa á veitingamarkaði og eiga aðild að Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT).
Samkeppnisbrot af því tagi sem eru til rannsóknar teljast alvarleg brot á samkeppnislögum og varða sektum eða fangelsi.
Rannsóknin snýr að stofnun stéttarfélagsins Virðingar sem gert hefur samninga við SVEIT og fyrirtæki innan félagsins. Hún hófst eftir að Samkeppniseftirlitinu barst kvörtun frá stéttarfélögunum Eflingu, Starfsgreinasambandinu og Alþýðusambandi Íslands. Verkefnastjóri hjá Samkeppniseftirlitinu staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.
Stéttarfélögin hafa ítrekað haldið því fram að Virðing sé ekki raunverulegt stéttarfélag og hafi verið stofnað af SVEIT svo ekki þyrfti að greiða laun samkvæmt gildandi kjarasamningum.
Félögin sendu áður frá sér sameiginlega tilkynningu um málið þar sem sagði að „Virðing er í raun undir stjórn veitingafyrirtækja og samningurinn felur í sér samráð um launakjör, sem er brot á samkeppnislögum.“
Erindin fjögur voru send á forsvarsmenn Virðingar og SVEIT en einnig forsvarsmenn fyrirtækjanna Taste ehf., sem er að meirihluta í eigu Magnúsar Scheving og Hrefnu Bjarkar Sverrisdóttur, og Sóley Minerals ehf., sem er að hluta í eigu Hrefnu Sætran og Björns Árnasonar.
Hrefna Björk var stjórnarmaður í SVEIT frá stofnun félagsins í júní 2021 til ársins 2024. Hún situr nú sem varamaður í stjórn. Björn Árnason hefur verið stjórnarmaður í SVEIT og tók við sem formaður í júní 2024.
Brot sem geta legið við háar sektir og fangelsisvist
Samkeppniseftirlitið staðfestir að í erindunum sem send hafi verið út komi fram að ólögmætt samráð keppinauta um verð og önnur mikilvæg viðskiptamálefni sé eitt alvarlegasta brotið á samkeppnislögum. Slík brot varði sektum sem geti numið allt að 10% af heildarveltu fyrirtækja og fyrirtækjasamstæðna. Auk þess geti stjórnendur fyrirtækjanna átt á hættu allt að sex ára fangelsisvist.
Samkvæmt upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu heyrir samningagerð kjarasamninga atvinnurekenda almennt ekki undir Samkeppniseftirlitið. En ef satt reynist að Virðing sé ekki raunverulegt stéttarfélag og hafi óeðlileg tengsl við SVEIT varði slíkt við samkeppnislög.
Erindin voru send út 31. mars og hafa viðtakendur til 16. apríl til þess að svara. Samkvæmt upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu hefur sá frestur verið framlengdur fram í miðjan mánuð í einhverjum tilfellum.
Eldri fréttir um málið