Samfélaginu í SÍMEY ýtt úr vör

Mynd fengin af simey.is
Mynd fengin af simey.is

Vert er að benda á þessa skemmtilegu frétt sem finna má á heimasíðu SÍMEY en þar kemur fram að núna á haustönn hefur sjaldan eða aldrei verið jafn mikið um að vera í SÍMEY í kennslu íslensku sem annars máls. Nú þegar hefur verið lokið við eða standa yfir samtals sextán staðnámskeið og tvö til viðbótar hefjast í þessari viku. Að auki hefur verið boðið upp á níu fjarnámskeið í íslensku sem öðru máli og á þeim eru töluð tungumál þátttakenda, sem búsettir eru um allt land.

Lengi hafa þeir sem halda utan um þessi íslenskunámskeið í SÍMEY og íslenskukennararnir velt fyrir sér að efna til viðburða þar sem þátttakendum á námskeiðunum, vinum og fjölskyldum þeirra væri boðið að koma og eiga góðar stundir saman. Fyrsti slíki viðburðurinn var haldinn föstudagskvöldið 27. október sl. í húsakynnum SÍMEY og segir Sif J. Ástudóttir verkefnastjóri í SÍMEY að áhugi fólks og mæting á þennan viðburð hafi farið fram úr björtustu vonum. Húsakynni SÍMEY höfðu í vikunni á undan verið klædd í hrekkjavökubúning, þar sem þátttakendur á námskeiðum lögðu hönd á plóg. Kvöldið var því ævintýranlegt og skemmtilegt þar sem blandað var saman kynningum, hugmyndavinnu og bingói. Dagskráin fór fram á íslensku, ensku, arabísku og rússnesku.

„Grunnhugsunin var sú að okkur langaði til þess að búa til samfélag eða vettvang innflytjenda sem sækja námskeið hjá okkur í SÍMEY og halda þannig enn betur utan um hópinn. Við buðum öllum þeim sem hafa verið hjá okkur á íslenskunámskeiðum og landnemanámskeiðum á bæði vor- og haustönninni á þessu ári að koma og taka þátt í þessari samverustund 27. október sl. Við viljum kalla þetta Samfélagið í SÍMEY – og áhugi okkar er að einhver viðburður verði að jafnaði einu sinni í mánuði. Viðburðadagskráin verði blanda af fræðslu, sköpun og leik af ýmsum toga og það kemur líka alveg til greina að stofna hópa í kringum ákveðin áhugamál. Allt á þetta eftir að þróast frekar. Við höfum þegar ákveðið að næsti viðburður verði nálægt næstu mánaðamótum og þá er laufabrauðsskurður og -steiking á dagskrá,“ segir Sif.

Ekki aðeins er boðið upp á hrein íslenskunámskeið á mismunandi þrepastigum. Til viðbótar er horft til samfélagsgerðarinnar á Íslandi á námskeiðunum Samfélagstúlkur og Íslensk menning og samfélag og það sama má segja um námskeiðið Landneminn.

Á þessum fyrsta viðburði Samfélagsins í SÍMEY 27. október sl. var kallað eftir hugmyndum, áherslum og óskum þátttakenda um viðburði eða námskeið. Sif segir að fjölmargar áhugaverðar hugmyndir hafi verið settar fram sem unnið verði með í framhaldinu. Þar komu meðal annars fram tillögur um námskeið í gerð fuglahúss, um Laxdælu, íslenska sögu, fjölmenningarkvöld og margt fleira. Almennt segir Sif að greinilega sé ríkur áhugi á fjölbreyttum gleðistundum í SÍMEY.