Ólíðandi launalækkun ræstingarfólks

Á vef SGS segir að í síðustu kjarasamningum vorið 2024 náðist sátt um að bæta kjör starfsfólks í ræstingum umtalsvert og umfram aðra hópa. Tveggja launaflokka hækkun og greiðsla ræstingarauka átti að skila þessum hópi tæplega 50 þúsund króna mánaðarlegri hækkun eða um 11,9%.

Frá því síðasta haust hafa verkalýðshreyfingunni svo borist fregnir af því úr ýmsum áttum að hjá sumum fyrirtækjum hafi starfsfólk í ræstingum nú lækkað verulega í launum, um allt frá 16-20%, og kjör þeirra nú séu jafnvel lakari nú en fyrir gerð síðustu kjarasamninga. Fyrirliggjandi gögn staðfesta réttmæti þessara upplýsinga.

Málið snýst um ákvæði í kjarasamningum sem kallast tímamæld ákvæðisvinna, en samkvæmt því er gert ráð fyrir að starfsfólkið klári tiltekin þrif innan ákveðinna tímamarka, nokkuð sem kallar yfirleitt á aukinn vinnuhraða. Fyrir það á að greiða 20% álag ofan á tímakaup.

Þau ræstingarfyrirtæki sem nú hafa látið til skarar skríða gagnvart sínum starfsmönnum hafa farið þá leið að breyta ráðningarfyrirkomulagi úr kerfi tímamældrar ákvæðisvinnu yfir í tímakaup, án þess að vinnufyrirkomulagi sé breytt. Þau dæmi sem komið hafa á borð verkalýðsfélaga sýna að starfsfólki er áfram gert að klára tiltekin þrif innan ákveðins tíma og ljóst að enn er unnið á auknum vinnuhraða, án þess að starfsfólk fái álagið greitt. Það er klárt kjarasamningsbrot.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, funduðu í vikunni með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins vegna þessa og er enn beðið viðbragða frá þeim.

Í ljósi þess að stofnanir ríkis og sveitarfélaga hafa á undanförnum árum í auknum mæli útvistað ræstingum m.a. einmitt til þessara tilteknu ræstingarfyrirtækja sem um ræðir, óskuðu formenn SGS og Eflingar eftir fundi með forsætisráðherra og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga til að fara yfir þessa grafalvarlegu stöðu og hefur sá fundur verið boðaður í næstu viku. Það að ríki og sveitarfélög bjóði út ræstingar og eigi í viðskiptum við þau ræstingarfyrirtæki sem kerfisbundið níðast á þennan hátt á þeim sem starfa við þessi mikilvægu störf verður ekki látið átölulaust.