Nýr samningur SVEIT og Virðingar óhagstæður þorra starfsfólks veitingahúsa

Vert er að benda á að á heimasíðu Eflingar kemur fram að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) og gervistéttarfélagið Virðing hafa útbúið nýjan svokallaðan kjarasamning sín á milli. Þrátt fyrir breytingar á fyrri samningi er hinn nýi samningur enn óhagstæður stærstum hluta starfsfólks á veitingamarkaði. Eining-Iðja tekur undir með Eflingu og hvetur félagsfólk sitt eindregið til að hafa samband og sækja sér aðstoð félagsins reyni atvinnurekendur að þvinga það til að undirgangast umræddan samning.

Sem kunnugt er, hefur Efling stéttarfélag sem og önnur stéttarfélög benti skilmerkilega á, var fyrri samningur þessara aðila ósamrýmanlegur við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Í nýjum samningi hefur vissulega verið brugðist við og þeim ákvæðum sem gengu gegn lögum breytt. Hins vegar eru ýmis réttindi enn mun lakari en í gildandi og löglegum samningi stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins. 

Dagvinnutími lengdur um þrjár klukkustundir

Á heimasíður Eflingar segir jafnframt að það sem einna mestu máli skiptir er að svokallaður kjarasamningur SVEIT og Virðingar inniber, þrátt fyrir að dagvinnutaxti sé í hinum nýja samningi lítillega hærri en í kjarasamningi Eflingar (og annarra stéttarfélaga) við SA, umtalsvert lakari launakjör fyrir þorra starfsfólks á veitingahúsamarkaði. Skýrist það af því að dagvinnutími samkvæmt samningnum er lengdur um þrjár klukkustundir dag hvern. Samkvæmt samningnum telst tíminn milli 17:00 og 20:00 til dagvinnutíma og eru því greidd dagvinnulaun fyrir vinnu á þeim tíma. Í samningum við SA er hins vegar greitt álag á þessum tímum. Sömuleiðis er álagsprósenta fyrir kvöld- og helgarvinnu lægri en í samningum við SA. 

Munar tugum þúsunda

SVEIT hefur sjálft haldið því fram að 56% vinnutíma starfsfólks á veitingamarkaði fari fram utan dagvinnutíma. Samningurinn leiðir þannig til kjaraskerðingar fyrir þá sem að vinna meira á kvöldin og/eða um helgar, og kemur sérstaklega illa við hlutastarfsfólk.

Útreikningar Eflingar sýna þetta svart á hvítu. Byrjunarlaun 22 ára almenns starfsmanns á veitingahúsi eru þannig 41.507 krónum hærri samkvæmt samningi Eflingar og SA heldur en þau væru samkvæmt samningi SVEIT og Virðingar. Frá og með 1. apríl 2025  eykst munurinn í 45.081 krónu. Í báðum tilvikum er um að ræða starfsmann sem vinnu eftir svokölluðu rúllandi vaktakerfi sem algengt er á veitingahúsum og inniber vinnu til klukkan 22:00 flest kvöld og fjóra helgardaga unna í mánuði. Samtals vinnur starfsmaðurinn 171 klukkutíma á mánuði. Sjá má nánari útreikninga í skjali neðst í fréttinni.

Ólögmætur samningur

Efling stéttarfélag ítrekar allan fyrri málflutning sinn varðandi tilraunir SVEIT og gervistéttarfélagsins Virðingar til að veikja kjör starfsfólks í veitingageiranum. Virðing er ekki raunverulegt stéttarfélag, heldur framlenging á hagsmunum atvinnurekenda. Félagið er enda stofnað að frumkvæði veitingamanna, af veitingamönnum sjálfum eða fólki tengdum þeim nánum böndum. Samningur á milli SVEIT og Virðingar er því ekki raunverulegur kjarasamningur heldur einhliða gjörð atvinnurekenda. Hann er því ólögmætur og felur í sér ólögmætt samráð. 

Stéttarfélög hvetja félagsfólk sitt, sem og öll þau sem starfa á veitingahúsum, til að hafa samband búi þau yfir vitneskju um að atvinnurekendur beiti hinum ólögmæta samningi. 

Starfsfólk stéttarfélaganna er boðið og búið til að leiðbeina og aðstoða öll þau sem á þurfa að halda, til að sækja þann sjálfsagða rétt sinn að starfa samkvæmt löglegum og gildandi kjarasamningum við SA en vera ekki neydd til að starfa undir ólögmætum gervikjarasamningi. 

Á heimasíðu Eflingar má skoða samanburð milli samninga