Nýr kjarasamningur við sveitarfélögin undirritaður

Í gær var undirritaður nýr kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitafélaga. Þessi kjarasamningur er með sambærilegum hætti og kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði og gildir frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028.

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýja kjarasamninginn mun hefjast kl. 12:00 á morgun, föstudaginn 5. júlí. Henni mun ljúka kl. 9:00 mánudaginn 15. júlí.  Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verða kynntar sama dag. Hægt verður að greiða að greiða atkvæði í gegnum heimasíðu Einingar-Iðju.

Launahækkanir eru eftirfarandi:

  • 1.4 2024 – 3,25% eða 23.750 kr.
  • 1.4 2025 – 3,25% eða 23.750 kr.
  • 1.4 2026 – 3,25% eða 23.750 kr.
  • 1.4 2027 – 3,25% eða 23.750 kr.

Þessu til viðbótar mun svokallaður Félagsmannasjóður hækka um 0,7% og fer því úr 1,5% í 2,2%. 

Einnig munu viðbótarlaun koma á starfsheiti í grunnskóla hjá skólaliðum og starfsmönnum í skóla með stuðning en þessi fjárhæð verður 8.500 kr. á mánuði.

Hægt að skoða kynningu á helstu atriðumsamningsins hér en samninginn í heild má finna hér. Nálgast má frekari upplýsingar um samninginn og atkvæðagreiðsluna á upplýsingasíðu SGS um samninginn sem opnuð verður um leið og atkvæðagreiðsla hefst.

Þrír rafrænir kynningarfundir (einum bætt við frá fyrsta plani)

Félagið heldur þrjá rafræna kynningarfundi mánudaginn 8. júlí 2024. Fyrsti fundurinn verður kl. 10:00, næsti verður kl. 14:00 og sá þriðji kl. 17:00.

Fundirnir munu fara fram rafrænt á Microsoft Teams og þurfa þeir sem ætla að mæta að skrá sig hér svo hægt verði að senda viðkomandi félagsmanni hlekk á þann fund sem valinn er. 

------

17 aðildarfélög Starfsgreinasambandsins undirrituðu kjarasamninginn. SGS vísaði kjaradeilunni til ríkissáttasemjara þann 20. júní sl. og síðan þá hafa samningsaðilar fundað stíft undir verkstjórn ríkissáttasemjara í þeim tilgangi að ganga frá samningi sem báðir aðilar getað unað við. Þau fundarhöld báru loksins árangur í gær.

Félögin sem standa að samningnum eru: Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis og Verkalýðsfélag Þórshafnar. Verkalýðsfélagið Hlíf undirritaði samninginn vegna félagsmanna sinna hjá Garðabæ, en ekki félagsmanna sem starfa hjá Hafnarfjarðarbæ. Þá dró AFL starfsgreinafélag umboð sitt til baka vegna deilu um sérákvæði við Sveitarfélagið Hornafjörð sem enn er óleyst.