Nýtt hús í Húsafelli tekið í notkun

Í fyrra hófust framkvæmdir við nýtt orlofshús félagsins í Húsafelli og er það nú tilbúið. Þetta er fyrsta húsið sem félagið eignast á svæðinu og er það allt hið glæsilegasta. Undanfarin ár hefur félagið tekið á leigu hús á svæðinu og hefur mikil eftirspurn verið eftir þessum stað og því er þetta góð viðbót við orlofskosti sem félagið á.

Eiríkur J. Ingólfsson byggingaverktaki í Borgarnesi sá um smíðina, en hann hefur reist fjölda orlofshúsa m.a. í Svignaskarði og í Húsafelli. Húsið er sambærilegt og hús félagsins í Svignaskarði, sem Eiríkur og félagar byggðu einmitt fyrir félagið

Nýja húsið er um 83 fermetrar að stærð með öllum helstu þægindum, stórum palli og að sjálfsögðu er heitur pottur við húsið. Svefnherbergi eru þrjú, tvö hjónaherbergi og í báðum eru tvö 80 cm rúm sett saman og eitt herbergi með koju á þremur hæðum, neðsta kojan er 120 cm en tvær efri eru 80 cm breiðar. Svefnpláss er fyrir átta manns. Eldhús og stofa eru í sama rýminu. 

Á næstu dögum verður hægt að bóka nýja húsið í gegnum Mínar síður félagsins

Hér má finna nokkrar myndir