Vorskýrsla Kjaratölfræðinefndar verður kynnt í húsakynnum ríkissáttasemjara á morgun, fimmtudaginn 20. júní kl. 10.00. Einnig verður streymt frá viðburðinum á vefsíðu Kjaratölfræðinefndar.
Í skýrslunni er umfjöllun um launaþróun eftir mörkuðum og heildarsamtökum í nýliðinni kjaralotu sem náði til tímabilsins frá nóvember 2022 til janúar 2024, þegar kjarasamningar flestra hópa á almennum vinnumarkaði runnu út. Þá er fjallað um helstu kjarasamninga sem gerðir hafa verið á vinnumarkaði það sem af er þessu ári. Einnig er í skýrslunni að finna umfjöllun um launastig og samsetningu launa á árinu 2023 eftir hópum auk ítarlegrar umfjöllunar um íslenskan vinnumarkað og sérkenni hans. Þá er almenn umfjöllun um þróun efnahagsmála og kaupmáttarþróun.
Kjaratölfræðinefnd er samstarfsnefnd ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka á vinnumarkaði um gerð og hagnýtingu talnaefnis um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, forsætisráðuneyti, félags- og vinnumálamálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Hagstofu Íslands.
Til kynningarinnar er boðið fjölmiðlum ásamt forystufólki og starfsfólki þeirra aðila sem aðild eiga að nefndinni. Kynningin fer fram á morgun, fimmtudag í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúni 21 og hefst kl. 10.00 þar mun Hrafnhildur Arnkelsdóttir formaður kjaratölfræðinefndar og Arnaldur Sölvi Kristjánsson sérfræðingur nefndarinnar fara yfir helstu niðurstöður skýrslunnar.