Fyrr í morgun var kynnt vorskýrsla Kjaratölfræðinefndar, samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag.
Í skýrslunni er áhersla lögð á umfjöllun um launaþróun eftir mörkuðum og heildarsamtökum í nýliðinni kjaralotu sem náði til tímabilsins frá nóvember 2022 til janúar 2024 auk umfjöllunar um launastig á árinu 2023, kjarasamninga, efnahagsmál og sérkenni íslensks vinnumarkaðar.
Meðalheildarlaun allra fullvinnandi á íslenskum vinnumarkaði voru 935 þúsund krónur á mánuði á síðasta ári. Laun hækkuðu um 11,1% í síðustu kjarasamningslotu, frá nóvember 2022 til janúar 2024. Á sama tíma hefur verðbólga mælst há og því jókst kaupmáttur launa aðeins um 1% í fyrra.
Heimasíða Kjaratölfræðinefndar þar sem m.a. má finna skýsluna í heild
Kjaratölfræðinefnd er samstarfsnefnd ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka á vinnumarkaði um tölfræði vegna kjarasamningsgerðar. Nefndin hóf störf í desember 2019 og eru fulltrúar í henni frá forsætisráðuneyti, félags- og vinnumálamálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Hagstofu Íslands. Með nefndinni var stofnað til samstarfs heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um gerð og hagnýtingu talnaefnis um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Nefndinni er ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga.