Föstudaginn 14. apríl sl. setti félagið inn þessa frétt vegna Niceair gjafabréfa. Þar kom m.a. fram að félagið hafi verið í samkiptum við Niceair til að fá fréttir um stöðu mála og hafði fengið þau svör að vonandi yrði hægt að koma með skýrari svör um framhaldið í lok þessarar viku.
Því miður hefur félagið ekki fengið nánari fréttir um gang mála en Eining-Iðja hefur tekið ákvörðun um að það geti ekki endurgreitt þau gjafabréf sem félagsmenn keyptu og félagið var búið greiða til Niceair. Okkur þykir leitt að niðurstaðan sé þessi og bendum félagsmönnum enn og aftur á að hafa samband við Niceair. Í tilkynningu sem Niceair sendi frá sér þann 5. apríl sl segir m.a.: "Endurgreiðslur farmiða sem greiddir voru með debet- og kreditkortum munu skila sér á næstu dögum. Öðrum farþegum er vinsamlegast bent á að senda erindi með upplýsingum um bókunarnúmer á niceair@niceair.is"
Við hjá Einingu-Iðju erum þó bjartsýn á framhaldið og vonumst eftir því að Niceair endurgreiði sem fyrst þau gjafabréf sem út af standa. Auðvitað vonum við að Nicair muni fara sem fyrst í loftið á ný þannig að félagsmenn geti þá mögulega nýtt gjafabréfin.